Hrefnan farin á haf út

„Þegar þeir voru búnir að leiða hann alveg út undir hafnarkjaftinn fór hann á kaf og hefur ekki sést síðan,“ segir Jón Stefánsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, í samtali við mbl.is en greint var frá vandræðum ungrar hrefnu við smábátahöfnina á Þórshöfn fyrr í kvöld.

Er samkvæmt heimildum mbl.is um að ræða ungt dýr, um fjórir og hálfur meter á lengd, og synti það um klukkan níu í morgun inn í höfnina á Þórshöfn. Milli klukkan 13 og 14 sást hrefnan á sundi fyrir innan smábátahöfnina þar sem hún að lokum strandaði.

Var í kjölfarið kallað til lögreglu sem ráðfærði sig við yfirdýralækni og Hafrannsóknastofnun um hvernig best væri að koma dýrinu á flot aftur. Að björguninni kom hópur sjálfboðaliða, björgunarsveitamenn og verktakar á vegum BJ vinnuvéla og tókst fyrir rest að koma dýrinu á sund aftur.

Hafði þá verið grafinn skurður frá strandstað og út í sjó.

Jón segir hrefnuna hafa synt um stund inni í höfninni áður en hún lét sig hverfa. Þegar mbl.is náði tali af honum hafði ekki sést til hrefnunnar í á þriðju klukkustund.

„Við erum búnir að keyra um hafnarsvæðið og lýsa það vel upp - það hefur ekki sést einn blástur,“ segir Jón og bætir við: „Hann er því að líkindum farinn á sínar slóðir og vonandi ratar hann ekki til okkar aftur.“

Fyrri fréttir mbl.is:

Syndir nú frjáls í höfninni

Hrefna í vanda á Þórshöfn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert