Menningarlegt torg þjóðarinnar

„Ár eftir ár höfum við nú fylgst með skipulegu niðurbroti á stofnun sem heldur utan um eitt af fjöreggjum þjóðarinnar í sögulegu og menningarlegu tilliti,“ segir í tilkynningu frá Rithöfundarsambandi Íslands um yfirstandandi umræðu um Ríkisútvarpið.

Í tilkynningunni harmar sambandið að „eina ferðina enn skuli veist að einni mikilvægustu menningarstofnun þjóðarinnar í tilefni af nýútkominni og umdeildri skýrslu um fjárhag hennar“.

Tilkynning Rithöfundarsambandsins í heild:

„Rithöfundasamband Íslands harmar að eina ferðina enn skuli veist að einni mikilvægustu menningarstofnun þjóðarinnar í tilefni af nýútkominni og umdeildri skýrslu um fjárhag hennar. Ár eftir ár höfum við nú fylgst með skipulegu niðurbroti á stofnun sem heldur utan um eitt af fjöreggjum þjóðarinnar í sögulegu og menningarlegu tilliti. Hvar væri íslensk ritlist, tónlist, myndlist, kvikmyndalist, leikilist í fjölmiðlum ef ekki væri fyrir RÚV? Ríkisútvarpið sinnir öllum þessum listgreinum, auk fjölmargra annarra samfélagslegra þátta sem enginn önnur stöð kemur nálægt. Það er því fyllsta ástæða, einmitt núna, þegar þrýstingurinn á íslenskar listir og tungu hefur aldrei verið meiri, að efla og styrkja Ríkisútvarpið. Það er menningarlegt torg allrar þjóðarinnar og það eina sem við eigum.“

Undir tilkynninguna ritar stjórn sambandsins en hana skipa Kristín Helga Gunnarsdóttir, Jón Kalman Stefánsson, Andri Snær Magnason, Hallgrímur Helgason, Vilborg Davíðsdóttir, Gauti Kristmannsson og Sigurlín Bjarney Gísladóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert