Íslensk tunga á undanhaldi fyrir ensku

Innan íslensku háskólanna er ensk tunga mjög áberandi þegar kemur …
Innan íslensku háskólanna er ensk tunga mjög áberandi þegar kemur að bæði kennslu og námsefni nemenda. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Íslenskan er dauð og mun ekki lifa mikið lengur enda kunna allir Íslendingar ensku og börn alast hér upp í ensku umhverfi,“ segir Úlfar Erlingsson, forstöðumaður tölvuöryggisrannsókna hjá Google, í samtali við Morgunblaðið.

Hann hélt nýverið erindi á aðalfundi Hins íslenska bókmenntafélags þar sem staða íslenskrar tungu var meðal annars til umfjölluar. Er íslenskan að mati Úlfars í sambærilegri stöðu og velska á Bretlandi. „Þetta er augljóst í augum allra þeirra sem eiga ung börn sem alast upp við að horfa á myndefni á YouTube eða Netflix. Tæknibylting nútímans býður hins vegar upp á að tölvan fari í hlutverk eins konar babelfisks sem túlkað getur sjálfkrafa fyrir okkur,“ segir Úlfar og bætir við að það sé einn helsti munurinn á stöðu íslenskrar tungu og þeim tungumálum sem þegar eru orðin útdauð. „Nú allt í einu er þessi tækni orðin til en við erum aftur á móti í miklu kapphlaupi við tímann til þess að bregðast við,“ segir hann.

Þyrftum ekki að heyra ensku

Að sögn Úlfars er lítið mál að koma í veg fyrir að þeir sem horfi á myndefni í gegnum skjái heyri eða sjái ensku. „Allt sem birtist á skjá er sjálfkrafa hægt að túlka yfir á íslensku án þess að þeir sem búa til forritin viti nokkuð um tungumálið. Það er skjárinn sjálfur sem sér um að túlka og talsetja sjónvarpsefnið fyrir okkur,“ segir hann.

Sú tækni sem nú er við lýði ræður vel við að talsetja einfaldara myndefni á borð við teiknimyndir og getur Úlfar sér þess til að eftir þrjú ár verði einnig hægt að gera slíkt hið sama við allar kvikmyndir. „Ég tel það mjög líklegt enda tekur tæknin ótrúlega örum breytingum.“

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, segir íslensku standa höllum fæti og nefnir einkum þrennt sem hafi haft áhrif á umhverfi og aðstæður tungumálsins.

„Má þar fyrst nefna YouTube- og Netflix-væðinguna sem býður upp á ótakmarkað aðgengi að óþýddu efni, snjalltækjavæðinguna, sem er sítenging við enskan málheim frá morgni til kvölds, og alþjóðavæðinguna, en hún birtist meðal annars í því að ungt fólk sér ekki endilega framtíð sína á Íslandi,“ segir Eiríkur og vitnar þar til nýlegrar könnunar sem sýndi fram á að um helmingur íslenskra framhaldsskólanema vildi búa erlendis. „Maður getur að sama skapi ímyndað sér að þessi niðurstaða segi einnig margt um viðhorf þeirra til íslenskunnar, enda gagnast hún lítið erlendis.“

Tungan glatast með tímanum

Þannig hefur að sögn Eiríks allt umhverfi íslenskunnar breyst mjög á örfáum árum og líkir hann umhverfi tungumálsins nú við það er Íslendingar fluttust búferlum til Bandaríkjanna og Kanada seint á 19. öld. „Þeir ætluðu að halda í það sem íslenskt var og stofnuðu meðal annars sjálfstæðar byggðir, gáfu hlutum og stöðum íslensk heiti og gáfu út blöð á íslensku svo fátt eitt sé nefnt, en svo glatast þetta smám saman og hætt er við að það muni einnig gerast hér,“ segir hann og heldur áfram: „Það sjást e.t.v. ekki miklar afleiðingar núna né eftir fimm til tíu ár, en þegar þær virkilega koma fram verður of seint að bregðast við þessari þróun.“

Veltur mikið á ungu fólki

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, segir ljóst að þótt íslenska sé töluð af mjög fáum einstaklingum sé hún hins vegar notuð á öllum sviðum samfélagsins.

„Hún er notuð í stjórnkerfinu, menntakerfinu, verslun og viðskiptum, fjölmiðlum, menningarlífinu og í öllum daglegum samskiptum fólks. En staðan gæti hins vegar verið að breytast og þá einkum meðal ungs fólks,“ segir Eiríkur.

Þá bendir hann jafnframt á að innan íslensku háskólanna er ensk tunga mjög áberandi þegar kemur að bæði kennslu og námsefni nemenda, en ekki er óalgengt innan deilda eða áfanga að allt námsefni sé á ensku.

Úlfar Erlingsson, forstöðumaður tölvuöryggisrannsókna hjá Google.
Úlfar Erlingsson, forstöðumaður tölvuöryggisrannsókna hjá Google. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is/Friðrik Tryggvason
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert