Eins og meðalveður í Vesturbænum

Talsverður snjór er núna í New York.
Talsverður snjór er núna í New York. Mynd: Skúli Jónsson

Óveðrið mikla sem geisar nú yfir austurströnd Bandaríkjanna er sambærilegt við það sem er algengt veður í Vesturbæ Reykjavíkur og snjórinn álíka og í venjulegum snjókomum hér á landi. Þetta segir Sigyn Jónsdóttir, nemi við Columbia háskólann í New York, en yfirvöld höfðu beðið íbúa svæðisins um að halda sig heima fyrir yfir helgina meðan veðrið gengi yfir.

Sigyn segir að hún hafi reyndar nýtt mestan hluta dagsins í lærdóm innandyra, en að í sjálfu sér væri veðrið ekki það slæmt að það hefði áhrif á sig. Sagðist hún þannig ætla að skella sér út á eftir og taka nokkrar myndir af snjónum sem hefur einkennileg áhrif á borgarlífið.

Samkvæmt spám var gert ráð fyrir vindi upp á 10 til 18 metra á sekúndu og 30 til 45 sentímetra jafnföllnum snjó á austurströndinni og segir Sigyn að öll húsþök og götur séu þakin snjó. Þá haldi flestir sig inni, en neðanjarðarlestin gangi. Þó hafi einhverjar tafir orðið á lestum sem gangi ofanjarðar. Sigyn segist einnig hafa fengið send skilaboð í farsíma sinn um að íbúar borgarinnar ættu ekki að vera að keyra á götunum til að rýma fyrir slökkviliðsbílum og sjúkrabílum.

Sigyn Jónsdóttir, meistaranemi við Columbia.
Sigyn Jónsdóttir, meistaranemi við Columbia.

Sigyn vann sjálf í Turninum í Kópavogi síðasta vetur. Í dag býr hún á 10. hæð ofarlega á Manhattan. Hún segir að óveðrið sem nú sé talað um svipi talsvert til þess útsýnis sem hún hafi haft í þrjá mánuði í Turninum yfir vetrartímann. Þá sé vindurinn ekki meiri en meðal Íslendingur upplifi reglulega „Ég er úr vesturbænum og 14 metrar á sekúndu er almennt lágmarkið,“ segir hún og hlær.

Aðspurð hvernig heimamenn séu að taka aðvörunum yfirvalda segir Sigyn að hún samkvæmt upplýsingum frá vinum sínum sem búi í borginni hafi það breyst talsvert eftir fellibylinn Sandy. Áður hafi fólk verið nokkuð kærulaust, en núna taki það ekki sénsa og kaupi mat fyrir nokkra daga og sé ekki úti að óþörfu. Sjálf segist hún þó spennt að kíkja út á eftir. „Myndi ekki hika við að fara út núna,“ segir Sigyn hress.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert