Tæta tölvur í boði /sys/tra

Keppendur spreyta sig á þrautinni í fyrra.
Keppendur spreyta sig á þrautinni í fyrra.

Keppt verður í svokölluðum tölvutætingi í Hörpu á morgun en keppnin er hluti af op­inni dag­skrá UT­mess­unn­ar. Í tölvutætingi fá þátttakendur safn af tölvuhlutum sem þeir eiga að setja saman í starfhæfa tölvu og koma henni í gang. Sá þátttakandi sem er fyrstur til að kveikja á tölvunni vinnur.

Fyrir keppninni standa fyrirtækið Promennt og /sys/tur, sem er fé­lag kvenna inn­an tölv­un­ar­fræðideild­ar Há­skól­ans í Reykja­vík. Sigurlaug Guðrún Jóhannsdóttir formaður /sys/tra segir í samtali við mbl.is að töluverð aðsókn hafi verið í keppnina í fyrra.

Kláraði keppnina á tveimur mínútum

Gert var ráð fyrir að það tæki keppendur um 20 til 30 mínútur að setja tölvuna sína saman. Annað kom á daginn.

„Einhver snillingur kom og kláraði þetta á tveimur mínútum. Hann var væntanlega einhver atvinnumaður og ég er hrædd um að hinir keppendurnir hafi ekki veitt honum mikla samkeppni.“

Það kann að koma einhverjum á óvart að samsetning tölva er ekki kennd í tölvunarfræðináminu. Tölv­un­ar­fræði hefur þannig verið sögð snúast jafn­mikið um tölv­ur og stjörnu­fræði snýst um sjón­auka.

„Við lærum náttúrulega um þetta allt í skólanum, hvaða hlutverki hver partur gegnir og hvernig hann vinnur, en maður er kannski ekki mikið að snerta á þessu,“ segir Sigurlaug.

Til mikils að vinna

Keppnin er opin öllum á aldrinum 15 til 25 ára og hefst klukkan 15 í Norðurljósum. Til klukk­an 14 verður hægt að skrá sig til leiks í bás­um Promennt og /sys/​tra. Klukk­an 14 verður svo dregið úr pott­i þar sem í ljós kemur hverjir fjórir fái að taka þátt.

Skjáir vísa út til áhorf­enda svo þeir geti fylgst með og hvatt sitt fólk áfram og séð „live“ hver vinn­ur. Til mikils er að vinna en sig­ur­veg­arinn hlýt­ur gjafa­bréf frá Promennt á nám­skeið í tölvuviðgerðum að verðmæti 139.000 kr.

Sigurlaug Guðrún Jóhannsdóttir formaður /sys/tra.
Sigurlaug Guðrún Jóhannsdóttir formaður /sys/tra.

Vitundarvaking um að auka þurfi hlut kvenna

Sigurlaug segir að sífellt fleiri stelpur sæki um í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík.

„Mín tilfinning er sú að það sé að verða vitundarvakning um nauðsyn þess að auka hlut kvenna í upplýsingatækni. Bæði skólar og fyrirtæki virðast hafa mikinn áhuga á að fjölga konum, enda eru margir kostir fólgnir í því. Eftir því sem umræðan verður meiri og fleiri fyrirmyndir koma fram, þá held ég að náum að laga þann kynjahalla sem óneitanlega er í faginu í dag.

Konur eru nú um fjórðungur nemenda í tölvunarfræði við HR en aðeins fyrir nokkrum árum var hlutfallið meira en helmingi minna. Sigurlaug segir jákvæðar breytingar vera að eiga sér stað

Allir velkomnir á UTmessuna

„Það er okkar markmið í /sys/trum, að fá konur til að líta á þetta fag sem raunverulegan og eðlilegan valkost. Við viljum líka hvetja fleiri konur til að sækja um störf í þessum geira. Ég hef fulla trú á því að þetta sé að breytast til betri vegar.“

Á bás /sys/tra í Norðurljósum verður hægt að fikta í tölvum og fylgihlutum, tæta og setja saman. Leiðbeinendur verða á básnum til að fræða gesti um vélbúnað tölvunnar og aðstoða við fiktið.

Allir eru velkomnir á UTmessuna en dagskrá hennar er tvíþætt. Í dag fer fram fagráðstefna og á morgun opnar sýning fyrir alla fjölskylduna. Þá opnar tæknigeirinn upp á gátt og býður almenningi að koma og sjá það helsta sem er að gerast í tæknigeiranum dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert