Verðið til Norðurál og Elkem „barn síns tíma“

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Verð sem Norðurál og Elkem (Járnblendið) á Grundartanga greiða fyrir raforku er „barn síns tíma“ og það er stefna Landsvirkjunar að hækka bæði verð í nýjum samningum og draga úr álverðstengingu. Stefnt er að því að endurnýjaðir samningar við þá sem renna út árið 2019 verði á svipuðu verði og nýir viðskiptavinir fá í dag. Þetta segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, í samtali við mbl.is.

Stærstu viðskiptasamningar hér á landi

Um er að ræða einhverja stærstu viðskiptasamninga hér á landi, en það er bæði vegna magns og tímalengdar. Á ársfundi Landsvirkjunar í dag sagði Hörður að núverandi samningar væru hagstæðir fyrir viðskiptavinina enda hafi þeir verið gerðir á allt öðrum tímum en núna væru og þá hefði verið annað umhverfi.

Í samtali við mbl.is sagði Hörður samningaviðræðurnar núna ganga vel og að hann bindi miklar vonir við að fyrirtækin nái saman um það. Sagði hann verðið sem Landsvirkjun væri að bjóða vera samkeppnishæf og að það sæist best á því hver eftirspurnin væri.

„Eftirspurnin er alltaf meiri en framboðið,

Svaraði Hörður meðal annars spurningu úr sal á þann veg að ef það kæmi núna beiðni frá nýjum viðskiptavini upp á kaup á 25 megavöttum, þá gæti fyrirtækið ekki gengið til samninga núna við viðkomandi þrátt fyrir að vilja borga uppsett verð og að verið væri að vinna í tveimur nýjum virkjunum núna. Eftirspurnin væri einfaldlega það mikil og ekkert af þeim verkefnum sem væru í gangi hefðu dottið niður.

Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og Hörður Arnarson, …
Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, á ársfundi félagsins á Hilton hótel í dag. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Sagði Hörður þetta áhugaverða stöðu fyrir fyrirtækið. Eftirspurnin væri mikil, bæði frá stærri aðilum sem og öðrum. Sagði hann meðal annars að eftirspurnin sýndi fram á að ef eitthvað væri að marka markaðslögmálin þá væri fyrirtækið að bjóða of lágt verð. Sagðist hann ekki hræddur um að eftirspurnin myndi dragast saman á komandi tímum. „Það er alveg sama hvað við byggjum, eftirspurnin er alltaf meiri en framboðið,“ sagði Hörður.

Harkan í viðræðunum eðlileg

Aðspurður hvort Landsvirkjun hefði kaupendur að orku ef Elkem eða Norðurál myndu ekki fallast á verðhækkanir segir Hörður slíkt tal ekki eiga við núna. „Allt of snemmt að ræða á þeim forsendum, fullur vilji okkar og mótaðila okkar að ná saman um verð. Höfum ekkert rætt það hvernig yrði brugðist við ef það gerist,“ segir hann. Til samanburðar segir hann að vöxtur fyrirtækisins í fyrra hafi verið 800 gígavattsstundir, en það sé ígildi eins samnings sem um ræðir.

Harkan í viðræðum fyrirtækjanna hefur ratað á síður fjölmiðla undanfarin ár. Hörður gerði þetta að umtalsefni í ræðu sinni á árfundinum og sagði hana eðlilega og að stjórnendur fyrirætkjanna væru aðeins að gæta hagsmuna fyrirtækjanna. „Þessir samningar eru trúlega stærstu viðskiptasamningar sem gerðir eru á Íslandi. Mikið magn og í langan tíma. Eðlilegt að það sé tekist á um það og okkur finnst eðlilegt hvernig viðsemjendur okkar eru að vinna,“ segir Hörður við mbl.is og bætir við að samningaviðræður erlendis fari alveg eins fram og séu oftar en ekki harðari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert