Fyrrverandi dómari gagnrýnir frumvarp um Landsrétt

Áslaug Björgvinsdóttir, fyrrverandi héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur frá árinu 2010 …
Áslaug Björgvinsdóttir, fyrrverandi héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur frá árinu 2010 til 2015, gagrýnir frumvarp innanríkisráðherra um Landsrétt. mbl.is

„Frumvarpið mætir ekki fallandi trausti almennings á dómstólum [og er] samið undir of sterkum áhrifum þess hluta handhafa dómsvaldsins sem vill tryggja ógagnsæja stjórnhætti og þar með vald til að stjórna af geðþótta.“ Þetta segir Áslaug Björgvinsdóttir, fyrrverandi dómarafulltrúi og fyrsti framkvæmdastjóri Dómstólaráðs árin 1994 til 2000 og fyrrverandi héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur frá árinu 2010 til 2015, um frumvarp innanríkisráðherra um Landsrétt.

Áslaug var gestur á fundi allsherjar- og menntamálanefndar þar sem hún lagði fram umsögn sína á  frumvarp til laga um dómstóla þann 19. apríl síðastliðinn. Ólöf Nordal, innanríkisráðherra er flutningsmaður frumvarpsins, sem lagt var fram í þinginu í mars. Áslaug segir ráðuneytið, allt frá tíð Ögmundar Jónassonar, hafa þaggað niður mál vegna meintra, ólögmætra starfshátta meðal annars með starfslokasamningum.

Umsögn Áslaugar er afar ítarleg og þar sem hún meðal annars að frumvarpið feli í sér veruleg fjárútlát fyrir ríkissjóð án þess að gerð sér tilraun til að mæta þeim fjárútlátum með sparnaði á öðrum sviðum, s.s. nauðsynlegum úrbótum á starfsskilyrðum héraðsdómstólanna, sameiningu þeirra og skilvirkri sáttameðferð.

Þá segir Áslaug að ekki sé tryggt að valnefnd dómara vinni faglega. „Undanfarin ár hafa niðurstöður hennar og síbreytilegar áherslur við mat á hæfni umsækjenda sætt gagnrýni og jafnvel þótt hafa á sér geðþóttayfirbragð,“ segir Áslaug í umsögn sinni.  

Að mati Áslaugar er ekki tryggt í frumvarpinu að jafnréttislög gildi við skipan í allar nefndir og ráð dómsvaldsins og að áfram verði í boði geðþóttavald dómstjóra við úthlutun mála til dómara. Þá segir hún að hvorki sé tryggt að stjórnsýslulög gildi við stjórnsýslu dómstóla né raunhæft eftirlit með stjórnendum dómstólanna og ábyrgð stjórnenda þeirra.

Áslaug kemur einnig inn á þá staðreynd að hvergi í frumvarpinu sé tekið á veikri stöðu kvenna í dómskerfinu. Ákvæði um stjórnkerfi dómsvaldsins tryggja ekki fjölbreytileika og fullnægjandi hæfni né séu til þess fallin að fyrirbyggja samtryggingartengsl og hagsmunaárekstur „sem falið geta í sér spillingarhættur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert