Gengur ekki að RÚV sé á auglýsingamarkaði

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra.
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

Það gengur ekki til lengdar að hafa Ríkisútvarpið á auglýsingamarkaði og það verður ekki komist hjá því að Alþingi taki afstöðu til þessa máls. Þetta sagði Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, á Alþingi í dag.

Tímabært að skoða fjölmiðlalög að nýju

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, hóf máls á stöðu fjölmiðla og lagasetningar í kringum þá. Vitnaði hún til skoðunar eftirlitsstofnunar ÖSE um samþjöppun á fjölmiðlamarkaði hér á landi og að styrkja ætti fjölmiðlanefnd. Tók Illugi undir með henni og sagði að tímabært væri að skoða lögin að nýju og stöðu fjölmiðlanefndar. Nefndi hann t.d. að skoða mætti hvort einhver verkefni sem nefndin hafi í dag mætti færa undir Samkeppniseftirlitið.

Í framsögu sinni sagði Birgitta að fjölskyldu-, hagsmuna- og eignatengsl og fleira væru raunveruleiki í litlu samfélagi eins og á Íslandi og því þyrfti að tryggja vel ritstjórnarlegt sjálfstæði fjölmiðla. Vitnaði hún í grein sem Magnús Halldórsson, þáverandi blaðamaður Fréttablaðsins og núverandi fréttamaður á Kjarnanum, skrifaði undir heitinu „Litli karlinn“ um áhrif eigenda miðilsins á blaðamenn. Þá nefndi hún einnig forsetaframboð ritstjóra Morgunblaðsins og áhrif á blaðamenn miðilsins.

Fjölmiðlar þurfa að vera raunverulega óháðir

Sagði Birgitta að tryggja þyrfti að fjölmiðlar væru raunverulega óháðir og að almenningur vissi hver væri raunverulega eigandi þeirra eða hvernig þeir væru fjármagnaðir.

Illugi sagði ekki langt síðan ný fjölmiðlalög hefðu verið samþykkt, en að vegna mikilla breytinga væri rétt að endurskoða þau. Slíkt þyrfti að gera oft og reglulega. Nefndi hann meðal annars áhrif erlendra efnisveita á auglýsingamarkað sem ógn við innlenda fjölmiðla.

„Rekstrarstaða fjölmiðla mun fara versnandi

Í því ljósi sagði hann rekstrarstöðu fjölmiðla áhyggjuefni. Vegna færslu tekna til erlendra fyrirtækja þyrfti að taka ákvörðun fljótlega um hvort taka ætti Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði. Sagði hann það ekki gerast á einu eða tveimur misserum, en að undirbúa þyrfti slíkt. „Rekstrarstaða fjölmiðla mun fara versnandi, öll þróun í þá átt,“ sagði Illugi og bætti við að Ríkisútvarpið tæki í dag mikið áhorf og um leið auglýsingatekjur af einkamarkaðinum.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Varðandi ritstjórnarlegt sjálfstæði sagði Illugi nauðsynlegt að slíkt væri virt. Aftur á móti sagðist hann þeirrar skoðunar að einstaklingar ættu að geta stofnað fjölmiðla til að koma sínum skoðunum á framfæri, en að þá þyrfti eignarhald að vera ljóst.

Ólíðandi þróun að ráðamenn velji sér fjölmiðla til að ræða við

Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði undir umræðum um málið að sú þróun vekti athygli sína að ráðamenn væru í auknum mæli að velja sér fjölmiðla til að ræða við. Slíkt væri ekki líðandi og því væri nauðsynlegt að standa vörð um fjölmiðil í almannaeigu og að ekki mætti minnka framlög til stofnunarinnar.

Fleiri þingmenn minnihlutans tóku til máls og tóku undir að tryggja þyrfti stöðu Ríkisútvarpsins. Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, sagði í raun ekki skipta máli hvort stofnunin væri á auglýsingamarkaði eða ekki. Það þyrfti bara að tryggja að hún gæti rekið sig sómasamlega.

Aldrei ódýrara að stofna fjölmiðil

Sigríður Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði aftur á móti aldrei ódýrara eða auðveldara að stofna fjölmiðil og því þyrfti frekar að draga Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði svo ýtt væri undir fjölbreyttari fjölmiðlun og fleiri einkaaðilar hefðu aðgang að auglýsingatekjum.

Undir lok umræðunnar steig Illugi á ný í pontu og sagðist sjá málið þannig að það væri nauðsynlegt að hafa öflugt almannaútvarp. „Veigamikil rök fyrir því,“ sagði hann. Það þyrfti aftur á móti að horfa á fjölmiðlamarkaðinn í heild þar sem einkamarkaðurinn gæti þrifist við aðstæður þar sem miklar breytingar á auglýsingamarkaði væru. Sagðist hann hafa áhyggjur af stöðu einkarekinna fjölmiðla. „Þarf að komast lausn í það,“ sagði hann og bætti við að ekki væri langur tími til stefnu til þess að koma Ríkisútvarpinu af auglýsingamarkaði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert