Gefur öfgahópum byr undir báða vængi

Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir Brexit áhyggjuefni.
Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir Brexit áhyggjuefni. mbl.is/Eggert

„Við vissum að þetta stóð tæpt en niðurstaðan gengur gegn ráðleggingum sérfræðinga, gegn óskum atvinnulífsins og forystumanna í stjórnmálum. Þá vildi unga fólkið í Bretlandi vera áfram í Evrópusambandinu og þessi niðurstaða gengur því gegn væntingum þessara hópa,“ segir Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, spurð um viðbrögð við fregnum þess efnis að Bretar hafi kosið í þjóðaratkvæðagreiðslu að ganga úr Evrópusambandinu.

Oddný segir að um sé að ræða stórtíðindi en nú taki við mikið óvissutímabil þar sem þarf að sætta fylkingar, kynslóðir og héruð í Bretlandi.

„Skotar hafa strax sagt að þeir vilji kjósa aftur um sjálfstæði þannig að ef maður horfir á þetta í víðara samhengi og hvaða áhrif þetta hefur á Evrópusambandið og Evrópusamvinnu er það augljóst þótt við sjáum það kannski ekki núna nákvæmlega hvað gerist,“ segir Oddný.

Hún segist jafnframt hafa áhyggjur af því að niðurstaðan gefi öfgahópum rasista og hægri öfgamanna byr undir báða vængi. „Það er ljóst að fólkið sem vill að Bretlandi verði áfram opið varð undir og það fer aðeins um mann,“ segir Oddný.

Meta hag Íslands út frá stöðunni

Hún segir það mjög eðlilegt að David Cameron, fráfarandi forsætisráðherra Bretlands, hafi sagt af sér í ljósi niðurstöðunnar. „Það er ljóst að hann vildi ekki vera sá sem fylgir þessari ákvörðun eftir,“ segir Oddný.

Hún segir jafnframt að nú þurfi að meta hag Íslands út frá stöðunni. „Við erum mjög tengd Bretum og eigum mikið undir góðu viðskiptasambandi við þá. Nú hafa pundið og markaðir hríðfallið og við verðum að horfa á þetta og meta alltaf hag Íslands út frá stöðunni. Það þarf að skoða hvort það eigi að hvetja Breta til þess að koma í EES og EFTA en maður veit ekki hvernig það blasir við ef Bretland er að klofna niður í litlar eindir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert