Umboðsmaður Alþingis skoðar mál Ezes

Eze Okafor.
Eze Okafor.

Meðferð yfirvalda útlendingamála á máli nígeríska hælisleitandans Ezes Okafors er nú til skoðunar hjá umboðsmanni Alþingis sem hefur óskað gagna um hana, að sögn lögmanns Ezes. Útlendingastofnun hefur nú óskað eftir gögnum sem sanna að hann hafi raunverulega tengsl við Ísland.

Eze var vísað úr landi í þarsíðustu viku en hann dvaldi hér á landi undanfarin fjögur ár á meðan yfirvöld hafa haft umsókn hans um hæli og síðar dvalarleyfi til meðferðar. Hann ber að hann sé á flótta undan íslömsku öfgasamtökunum Boko Haram í heimalandinu og honum stafi hætta af liðsmönnum þeirra neyðist hann til að snúa aftur þangað.

Útlendingastofnun hefur fram að þessu hafnað því að taka hælisumsókn hans til efnismeðferðar og lét vísa honum úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Katrín Theodórsdóttir, lögmaður Ezes, sótti um dvalarleyfi fyrir hann af mannúðarástæðum í desember og að hann fengi að dvelja á landinu á meðan farið er yfir þá umsókn hans. Ákvæði útlendingalaga heimila veitingu slíks dvalarleyfis hafi útlendingur verið á landinu tvö ár eða meira vegna meðferðar hælisumsóknar. 

Kærunefnd útlendingamála hafnaði hins vegar þeirri beiðni. Hún taldi ekki sanngirnisástæður mæla með því að stjórnvöld vikju frá þeirri meginreglu að útlendingur þurfi að vera utan landsins þegar hann sækir um dvalarleyfi eins og lög heimila þó.

Óskar eftir forsendum álits kærunefndarinnar

Það er sá úrskurður kærunefndarinnar sem umboðsmaður Alþingis hefur tekið til skoðunar. Katrín segir að hann hafi óskað eftir gögnum frá nefndinni um hvaða forsendur lágu að baki því áliti nefndarinnar að Eze uppfyllti ekki skilyrði sem gerðu honum kleift að vera á landinu á meðan farið er yfir umsókn hans um dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Þá vill hann gögn um hvernig undanþáguákvæðinu hefur verið beitt fram að þessu.

Katrín segist fagna því að umboðsmaður hafi tekið málið til skoðunar og hún treysti honum til þess að meta hvort staðið hafi verið rétt að afgreiðslu máls Ezes. Hálft ár sé liðið frá því að hún sótti um dvalarleyfi fyrir hann á mannúðarforsendum. Allt sem hafi farið fram síðan snúist aðeins um hvort hann fái að vera á landinu á meðan umsóknin er til meðferðar. 

Frá mótmælum í innanríkisráðuneytinu vegna brottvísunar Eze Okafor.
Frá mótmælum í innanríkisráðuneytinu vegna brottvísunar Eze Okafor. mbl.is/Andri Steinn

Fjallað um málið í nígerísku miðli

Jórunn Edda Helgadóttir, félagi í samtökunum No Borders Iceland, segir að Eze bíði enn svara í Svíþjóð, en þangað var honum vísað í júní. Þar á hann yfir höfði sér brottvísun til Nígeríu.

Hún segir Útlendingastofnun nú hafa óskað eftir gögnum sem sanni tengsl Ezes við Ísland. Er það vegna ákvæðis útlendingalaga sem kveður á um að heimilt sé að veita dvalarleyfi hafi hælisleitandi dvalið hér á landi í tvö ár. Þetta kemur Jórunni Eddu spánskt fyrir sjónir.

Frétt mbl.is: Flúði undan Boko Haram til Íslands

„Það þykir okkur mjög skrýtið í ljósi þess að hann var á landinu í fjögur ár og þar af leiðandi augljóst að hann hefur tengsl við það. Það er ekkert sem stendur í vegi fyrir því að veita honum dvalarleyfi á grundvelli [ákvæðisins],“ segir Jórunn Edda.

Þá vekur umfjöllun í Nígeríu um málið áhyggjum hjá vinum Ezes á Íslandi.

„Það birtist frétt um mál hans í nígerískum fjölmiðli á netinu þannig að það er Boko Haram-meðlimum og hverjum sem er öðrum í lófa lagið að komast að því að honum eigi að vísa aftur til Nígeríu á næstu dögum,“ segir Jórunn Edda og vísar í frétt á vefnum Vanguard.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert