Mislingasmit um borð í flugvél

Barnið hafði verið í vél Icelandair frá Kanada til Bretlands …
Barnið hafði verið í vél Icelandair frá Kanada til Bretlands með millilendingu á Íslandi. AFP

Í byrjun ágúst greindist erlent barn með mislinga í Bretlandi, en það hafði verið í vél Icelandair frá Kanada til Bretlands með millilendingu á Íslandi. Tíu dögum síðar veiktist Íslendingur á sextugsaldri, en hann hafði verið í sömu vél og ofangreint barn og var hann síðar greindur með mislinga. Hann var óbólusettur og hafði ekki fengið mislinga áður. Honum heilsast nú vel og ekki er grunur um frekara smit hér á landi.

Þetta kemur fram á vef embættis landlæknis.

Þá segir að sóttvarnalæknir hafi sent tilkynningu um þessi tilfelli til allra farþega og áhafna í ofangreindum vélum Icelandair og ekki sé vitað um fleiri smitaða einstaklinga.

Mislingar greindust síðast hér á landi á árinu 2014 (erlent smit) en höfðu þá ekki greinst hér á landi frá 1996. Mislingar eru mjög smitandi og geta valdið alvarlegum einkennum. Eina ráðið til að koma í veg fyrir mislinga er með bólusetningu en engin lyf virka á mislinga.

Þátttaka barna í bólusetningu gegn mislingum hér á landi hefur verið um 90–95% og því má alltaf búast við því að mislingar geti borist hingað til lands og valdið litlum faröldrum. Ólíklegt er þó að hér geti komið upp stærri faraldrar.

Á síðustu 12 mánuðum hafa um 1800 einstaklingar greinst með mislinga í Evrópu og í ljósi tíðra ferðalaga Íslendinga má búast við allnokkrum líkum á því að komast í tæri við sjúkdóminn.

Börn hér á landi eru bólusett við 18 mánaða aldur og svo aftur við 12 ára aldur. Sóttvarnalæknir hvetur alla foreldra til að láta bólusetja börn sín gegn mislingum svo koma megi í veg fyrir að þau sýkist af þessum alvarlega sjúkdóm,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert