Ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni í Vallamálinu

Mikill viðbúnaður var hjá lögreglu vegna málsins á sínum tíma.
Mikill viðbúnaður var hjá lögreglu vegna málsins á sínum tíma. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Embætti héraðssaksóknara hefur ákært mann á fimmtugsaldri fyrir brot gegn valdstjórninni fyrir að hafa í ágúst 2015 ráðist að tveimur lögreglumönnum með hótunum um ofbeldi. Lögreglan hafði komið á heimili hins ákærða vegna tilkynningar um mikinn hávaða, en þegar maðurinn kom til dyra var hann mjög æstur og ógnandi í hegðun, að því er segir í ákæru málsins.

Frétt mbl.is: Var æstur og lét ófriðlega

Segir þar að hann hafi hótað lögreglumönnum líkamsmeiðingum og meðal annars ætla að sparka og taka útidyrahurðina af hjörunum og berja lögreglumennina. Maðurinn var svo úðaður með piparúða og fór hann þá inn í íbúðina og náði að loka útidyrahurðinni og hrópaði að hann ætlaði að sækja riffil. Var í framhaldinu kallað til aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra og var stórum hluta Vallahverfisins í Hafnarfirði lokað vegna aðgerða sérsveitarinnar.

Þegar sérsveitarmenn fóru í íbúðina um nóttina og náðu að yfirbuga manninn án mótspyrnu kom í ljós að engin skotvopn voru í íbúðinni. Hann var hins vegar með golfkylfu og eggvopn þegar hann var handtekinn.

Þegar mbl.is ræddi við lögreglumann á vettvangi á sínum tíma kom í ljós að móðir mannsins hafi einnig verið á staðnum og að maðurinn hafi verið í annarlegu ástandi. Reiði mannsins hafi aftur á móti ekki beinst gegn móður sinni sem hafi sloppið ómeidd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert