Edda Heiðrún látin

Edda Heiðrún Backman.
Edda Heiðrún Backman.

Edda Heiðrún Backman, leikari, leikstjóri og myndlistarmaður, lést á Land­spít­al­an­um í Fossvogi 1. október 58 ára að aldri. Edda Heiðrún fædd­ist á Akranesi 27. nóvember 1957. For­eldr­ar hennar voru Jóhanna Dagfríður Arnmundsdóttir og Halldór Sigurður Backman.

Hún lauk stúd­ents­prófi frá MS 1978 og leikaraprófi frá Leiklistarskóla Íslands 1983.

Edda Heiðrún átti farsælan feril sem leikari fram til ársins 2004 en þá hafði hún greinst með MND-sjúkdóminn, sem varð þess valdandi að hún hætti að leika. Þá sneri hún sér að leikstjórn og leikstýrði nokkrum fjölda sýninga bæði í Borgarleikhúsinu og Þjóðleikhúsinu. Árið 2007 opnaði Edda blómabúðina Súkkulaði og rósir, þar sem hún bauð upp á heimsins besta súkkulaði og fallegustu rósir.

Árið 2008 fann Edda Heiðrún sköpunarkrafti sínum nýjan farveg þegar hún hóf að mála með munninum, bæði vatnslitamyndir og olíu, myndir af fuglum og fólkinu sem  var henni kært. Haustið 2009 var Eddu boðin aðild að alþjóðlegum samtökum munn- og fótmálara, „The Association of Mouth and Foot Painters“. Á ferli sínum sem myndlistarmaður hélt hún fjölda sýninga, bæði í Reykjavík og út um land, auk þess sem hún átti myndir á sýningum erlendis.

Edda Heiðrún gerðist ötul baráttukona fyrir réttindum fatlaðs fólks og lagði mikið af mörkum þegar hún, ásamt Hollvinasamtökum Grensás, stóð fyrir landssöfnun til uppbyggingar og endurbóta  á Grensásdeild undir yfirskriftinni Á rás fyrir Grensás. Þar söfnuðust á annað hundrað milljónir króna.

Þá var Edda mikill talsmaður umhverfisverndar og íslenskrar náttúru. Hún stofnaði félagsskapinn Rödd náttúrunnar snemma á þessu ári, sem er ætlað það hlutverk að veita náttúrunni rödd og réttindi. Sérstaklega var henni hugleikin baráttan fyrir stofnun hálendisþjóðgarðs á miðhálendi Íslands.

Edda Heiðrún hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir list sína. Þrisvar sinnum hlotnuðust henni Íslensku sviðslistarverðlaunin, þ.á m. heiðursverðlaun Grímunnar 2015. 2003 hlaut hún Íslensku kvikmyndaverðlaunin, Edduna. 2006 var hún borgarlistamaður Reykjavíkur og 2008 heiðraði Alþingi hana með því að samþykkja hana í hóp heiðurslistamanna.

Edda Heiðrún lætur eftir sig tvö börn, Arnmund Ernst leikara og Unni Birnu menntaskólanema.

Edda Heiðrún Backman.
Edda Heiðrún Backman. Ólafur Már Svavarsson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert