Tengja árangurinn við Fálkana

Gísli Gíslason, ritari KSÍ, Guðrún Inga Sívertsen varaformaður, Þórður B. …
Gísli Gíslason, ritari KSÍ, Guðrún Inga Sívertsen varaformaður, Þórður B. Guðjónsson aðalræðismaður og Ragnhildur Skúladóttir stjórnarmaður með árituðu treyjurnar sem verða vinningar á hlutaveltu vestra. Ófeigur Lýðsson

Vesturíslenska tímaritið Lögberg Heimskringla, sem gefið er út í Winnipeg í Kanada, berst í bökkum eins og fleiri fjölmiðlar, en hefur nú fengið aðstoð úr óvæntri átt, landsliðsbúninga og áritaðar treyjur frá Knattspyrnusambandi Íslands og íslenska karlalandsliðinu, sem til stendur að bjóða sem vinninga í hlutaveltu á næstunni.

„Sigur karlaliðs Íslands á Englandi í Evrópukeppninni í fótbolta í sumar er besti árangur Íslendinga í íþróttum síðan Fálkarnir frá Winnipeg urðu ólympíumeistarar í íshokkíi 1920,“ segir Peter Johnson, stjórnarformaður LH. „Þegar Þórður [Guðjónsson, aðalræðismaður Íslands í Winnipeg] sagði mér að hann hefði fengið áritaða búningana að gjöf hjá Knattspyrnusambandinu var ég álíka æstur og Guðmundur Benediktsson í lýsingunni á fyrrnefndum leik. Þetta er frábært fyrir LH og nú getum við tengt árangurinn beint við Fálkana og ungu kynslóðina í Vesturheimi.“

Landsliðið vinsælt vestra

Undanfarinn rúman áratug hefur skrifstofa LH verið í leiguhúsnæði í miðborginni en nú hefur byggingin verið seld og flutningar því óumflýjanlegir. Stjórnarformaðurinn segir að þeir kosti um 40.000 kanadíska dollara, um 3,5 milljónir króna, og blaðið eigi ekki þá upphæð á lausu.

Þórður B. Guðjónsson var á Íslandi á dögunum og notaði tækifærið til þess að hafa samband við KSÍ. „Peter Johnson bað mig um að athuga hvort möguleiki væri að fá áritaðar treyjur með tombólu í huga, ég bar erindið upp við Gísla Gíslason, ritara KSÍ, og hann brást þegar vel við bóninni.“

Árangur íslenska landsliðsins í úrslitakeppni Evrópumótsins í Frakklandi fyrr í sumar vakti mikla athygli og Þórður og Peter segja að stemmningin hafi verið einstaklega skemmtileg, þar sem þeir hafi fylgst með leikjum Íslands í sjónvarpi í Winnipeg og á Gimli. „Þar sem fólk fylgdist með keppninni mátti víða sjá að stuðningurinn var mikill við Ísland og þá ekki aðeins hjá fólki af íslenskum ættum,“ segir Þórður. „Íslenska liðið átti hug margra hérna fyrir vestan og andrúmsloftið var rafmagnað, þegar Ísland sigraði England,“ segir Peter. „Þetta er ein magnaðasta sagan um sigur Davíðs á Golíat á okkar tímum.“

Þrátt fyrir kostnaðinn við flutningana í lok mánaðarins segir Peter að hugmyndin sé að nýta þá til þess að vekja athygli á mikilvægi LH í íslenska samfélaginu vestra. „Nú gefst okkur tækifæri til þess að vekja fólk af íslenskum ættum í Norður-Ameríku og aðra sem tengjast Íslandi til umhugsunar um upprunann og mikilvægi þess að viðhalda menningunni frá kynslóð til kynslóðar,“ segir hann. Í því sambandi segir hann að gjöf KSÍ sé gulls ígildi og stefnt sé að því að selja miða fyrir 20.000 dollara í hlutaveltunni. „Enn einu sinni hefur þetta ótrúlega lið staðið sig frábærlega, að þessu sinni með stuðningi við mikilvægan hlekk íslensku fjölskyldunnar í Norður-Ameríku, sem var hjálpar þurfi. Heillaóskir til þeirra allra.“

Í Winnipeg. Peter Johnson og Þórður Guðjónsson með aðra treyjuna.
Í Winnipeg. Peter Johnson og Þórður Guðjónsson með aðra treyjuna. Ljósmynd/Bergdís Sigurðardóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert