Virkja einhverfa einstaklinga

Bjarni Torfi hefur alla tíð unnið mikið í félags- og …
Bjarni Torfi hefur alla tíð unnið mikið í félags- og íþróttastarfi og segir hann vinnuna hjá Specialisterne að mörgu leyti líkt því sem hann hefur upplifað þar. Ljósmynd/Daði Gunnlaugsson

„Svona fyrst og síðast myndi ég segja að við séum að rjúfa félagslega einangrun og gefa þeim tækifæri til að vinna að verkefnum við hæfi,“ segir Bjarni Torfi Álfþórsson, framkvæmdastjóri Specialisterne á Íslandi um starfsemi félagsins. Specialisterne á Íslandi var stofnað árið 2011 en starf félagsins felst í því að þjálfa og meta atvinnulausa einstaklinga á einhverfurófinu og koma hluta þeirra í vinnu.

Specialisterne á Íslandi byggist á danskri fyrirmynd sem var stofnuð árið 2001 með það að markmiði að skapa milljón störf fyrir fólk á einhverfurófi á heimsvísu. Bjarni Torfi segir að upphafið á Íslandi megi rekja til foreldrahóps sem velti því fyrir sér hvað myndi verða um börnin þeirra þegar þau væru komin yfir tvítugt.

„Það er vel gert við einhverfa í leikskóla, grunnskóla og í sumum framhaldsskólum en eftir tvítugsaldurinn var fátt sem tók við.“

Ekki of mikil pressa

Specialisterne á Íslandi vinna með 14-18 einstaklingum á ári og á síðustu fimm árum hafa um 90 einstaklingar verið hluti af starfinu í styttri eða lengri tíma. Af þeim hefur rúmur helmingur farið í launaða vinnu eða nám en ekki allir treysta sér til að mæta reglulega og taka þátt.

„Við höfum reynt að vera ekki að pressa of mikið því fyrir marga er það stórt verkefni bara að fara á fætur og vera innan um annað fólk í fjóra til fimm tíma á dag.“

Starfsemin byggist á vikulegri dagskrá þar sem unnið er með erlenda og innlenda kennsluvefi, fræðslu og viðtöl og farið í líkamsrækt og sund en þess er ekki krafist að einstaklingar taki þátt í allri dagskránni.

„Okkar kúnst er að rjúfa félagslega einangrun og einveru, koma á svona eðlilegum rytma fyrir hvern og einn og finna svo styrkleika og áhugamál. Við reynum að finna áhugasvið hvers og eins svo allir hafi eitthvað að gera við sitt hæfi. Við viljum ekki ota neinu að þeim sem ekki á við, það fælir fólk frekar frá.“

Fjármögnun stór áskorun

Bjarni Torfi er fyrsti og eini framkvæmdastjóri Specialisterne á Íslandi til þessa en Specialisterne er sjálfseignarstofnun og því ekki rekin í hagnaðarskyni. Hann segir vinnuna skemmtilega en að vissulega sé erfitt að eiga í stöðugri baráttu vegna fjármögnunar. „Þetta er pínu bras, erfitt að fá fjármagn í reksturinn og svona.“

Íslenska starfstöðin er byggð upp á annan hátt en sú danska en þar fær félagið greiðslu frá sveitarfélögum fyrir hvern einstakling sem nýtir sér þjónustuna. Danska systurfélagið selur einnig þjónustu frá einstaklingum á sínum vegum og aflar sér því aukinna tekna á þann hátt.

„Það hefur aldrei neinn farið frá okkur í útselda vinnu. Allir sem hafa farið frá okkur vinna fyrir eigin vasa. Okkar ávinningur er í rauninni bara að skapa þeim vinnu.“

Bjarni Torfi segir Specialisterne á Íslandi þó vera í góðu samstarfi við nokkur sveitarfélög, velferðarráðuneytið og auk þess hafa Vinnumálastofnun og Virk keypt af þeim nokkur pláss. Hann vonast til að nú þegar félagið er orðið fimm ára og hefur sannað sig verði auðveldara að sækjast eftir fjármagni.

Bjarni Torfi Álfþórsson.
Bjarni Torfi Álfþórsson. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Mikið þakklæti

Bjarni Torfi segir þó að þakklætið sem hann og aðrir starfsmenn Specialisterne á Íslandi finna fyrir frá skjólstæðingum og aðstandendum þeirra vegi vel upp á móti því brasi sem fylgir starfinu. „Það gefur manni aukinn kraft. Þá þykir manni svo vænt um þetta og tímir ekki að hætta.“

Móðir eins skjólstæðingsins, sem ekki vill koma fram undir nafni, segir starfsemi Specialisterne á Íslandi vera til mikillar fyrirmyndar og að sonur hennar hafi verið ánægður frá fyrsta degi.

„Það er ekki hægt að útskýra hvað Specialisterne hefur verið mikil blessun. Þetta lyfti honum bara upp. Honum fannst þetta frá upphafi svo skemmtilegt og fróðlegt. Hann byrjaði smátt en svo jókst það og alltaf var hann jafn ánægður.“

Bjarni Torfi segir soninn hafa átt erfitt með félagslegt samneyti í upphafi en að smám saman hafi það batnað og aukist. Móðirin tekur í sama streng og segir son sinn nú yfirleitt borða hádegismatinn í mötuneytinu í vinnunni sem hann hefði ekki gert fyrir fimm árum.

„Ef það er eitthvað sem hefur verið gert vel á Íslandi þá er það þetta. Þetta er bara svo frábært.“

Í hálfu starfi hjá Þjóðskrá

Ásgeir Guðmundsson hefur unnið hjá Þjóðskrá í rúmt ár. Hann segist hafa leitað til Specialisterne á Íslandi því hann vildi finna vinnu sem hentaði honum. Ásgeir vann áður hjá Póstinum en hann var að eigin sögn oft kvíðinn yfir veðrinu daginn áður en hann átti að bera út.

Ásgeir starfar hjá Þjóðskrá. Hann getur verið kvíðinn og því …
Ásgeir starfar hjá Þjóðskrá. Hann getur verið kvíðinn og því á rútínan í starfinu vel við hann. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Vegna kvíðans var Ásgeir einnig lengi hjá Specialisterne áður en hann fann vinnu en honum þótti erfitt að taka þetta stóra skref. Hann er þó að eigin sögn mjög ánægður í starfi núna.

„Það er gott að vera kominn með vinnu og vera ekki hangandi alltaf heima.“ Ásgeir mætir klukkan sjö á morgnana svo hann geti verið búinn snemma. „Mér finnst mjög þægilegt að vera bara í svona hálfs dags vinnu. Ég met mjög mikið allan minn frítíma.“

Anna Eyberg Hauksdóttir er verkefnastjóri hjá Þjóðskrá og yfirmaður Ásgeirs. Hún segir Ásgeiri ganga vel í starfi en að auðvitað hafi samstarfið krafist aðlögunartíma. „Þetta hefur bara gengið mjög vel. Þetta er náttúrlega svona nákvæmisvinna og það er það sem hann er góður í.“

Merki með meiningu

Starfsstöðvar Specialisterne um allan heim leggja áherslu á að draga fram styrkleika einstaklinga á einhverfurófinu. Merki félagsins er bifukolla og segir Bjarni Torfi það vera skírskotun í að allir hafi eitthvað fram að færa. „Merkið er túnfífill eða bifukolla. Flestir líta á túnfífilinn sem illgresi og hugsa ekki um hann sem skemmtilega plöntu. En túnfífillinn hefur lækningamátt því úr honum er hægt að vinna magastemmandi meðöl. Boðskapurinn í þessu er að það skiptir máli með hvaða augum maður lítur einstaklinginn,“ segir Bjarni Torfi.

Eins og túnfífillinn eigum við öll okkar sterku hliðar sem við nýtum okkur í lífi og störfum.

„Þannig er það með flest okkar. Við erum misgóð í hlutunum. Þeir sem eru einhverfir eða öryrkjar vegna einhvers annars hafa allir eitthvað, einhvern styrk sem getur nýst í atvinnulífinu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka