Keppa í iðn- og verkgreinum

Frá vinstri: Reynir Óskarsson, Bjarki Rúnar Steinsson, Iðunn Sigurðardóttir, Anton …
Frá vinstri: Reynir Óskarsson, Bjarki Rúnar Steinsson, Iðunn Sigurðardóttir, Anton Örn Gunnarsson, Bjarni Freyr Þórðarson og Sara Anita Scime. mbl.is/Freyja Gylfa

Iðn- og verkgreinakeppnin EuroSkills fer fram í Gautaborg nú í vikulok. Sjö fulltrúar Íslands keppa á mótinu sem tekur þrjá daga. „Það verða um 500 keppendur frá 28 Evrópulöndum,“ segir Björn Ágúst Sigurjónsson, formaður Verkiðnar, samtaka um keppnir í iðn- og verkgreinum á Íslandi.

Björn Ágúst starfar hjá Rafiðnaðarsambandinu en hann hefur verið formaður Verkiðnar frá stofnun árið 2010. Samtökin standa fyrir Íslandsmótinu í iðn- og verkgreinum en eiga auk þess aðild að EuroSkills- og WorldSkills-samtökunum sem standa fyrir alþjóðlegum mótum.

Aldurstakmark EuroSkills-leikanna miðast við 25. aldursár en aldursviðmið er í raun eina þátttökureglan. Ekki er sagt til um hversu langt viðkomandi megi eða eigi að hafa náð í námi. „Maður getur verið að byrja [í námi] eða jafnvel löngu búinn með sveinspróf og farinn að vinna.“

Fulltrúar Íslands í ár keppa sem fyrr segir í sjö iðngreinum. Anton Örn Gunnarsson keppir í húsasmíði, Axel Fannar Friðriksson í grafískri miðlun, Bjarki Rúnar Steinsson í málmsuðu, Bjarni Freyr Þórðarson í rafvirkjun, Iðunn Sigurðardóttir í matreiðslu, Reynir Óskarsson í pípulagningum og Sara Anita Scime í hárgreiðslu. Liðsstjóri er Svanborg Hilmarsdóttir rafmagnstæknifræðingur.

Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu EuroSkills 2016 verða keppnisgreinarnar rúmlega 40 í ár. Björn Ágúst segir það misjafnt eftir greinum hvernig keppnin fer fram.

„Í rafvirkjuninni vinna keppendur verkefni á bás eins og þegar þeir taka sveinsprófið hér heima. Í matreiðslu eru þeir auðvitað að elda og í hárgreiðslunni eru það allskonar hárgreiðslur en ég er nú ekki mikill sérfræðingur á því sviði.“

Hann segir það þó sammerkt með öllum greinum að keppendur fái upplýsingar um verkefnin áður en út er haldið.

„Svo fara dómarar yfir verkefnið en þeir hafa leyfi til að breyta því um allt að 30%. Þannig kemur ekkert raunverulega á óvart en á sama tíma geta keppendur ekki lært allt með bundið fyrir augun. Þar sem það er búið að breyta einhverju þurfa þeir líka að hugsa á staðnum,“ segir Björn Ágúst.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert