Selja eignir á Ásbrú fyrir 5 milljarða

Ásbrú á Reykjanesi.
Ásbrú á Reykjanesi. Ljósmynd/Ruben Mencos

Kadeco, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, hefur selt Íslenskum fasteignum ehf., íbúða- og atvinnuhúsnæði á Ásbrú fyrir um 5 milljarða króna. Kaupsamningur þess efnis var undirritaður í dag. Með þessu hefur Kadeo lokið við að selja 93% þess húsnæðis sem félagið hefur haft til umsýslu á Ásbrú fyrir hönd ríkissjóðs frá brotthvarfi bandaríkjahers af Miðnesheiði. Hafa eignirnar verið seldar til 38 mismunandi aðila í opnu söluferli.

Heildarsöluandvirði eignanna frá upphafi nemur samtals um 17,6 milljörðum króna. Þar af hefur Kadeco undanfarin tvö ár selt eignir fyrir 8,5 milljarða. Ætla má að hreinar tekjur Ríkissjóðs af sölu eigna sinna á Ásbrú muni á endanum nema ríflega 10 milljörðum króna, að því er segir í tilkynningu frá Kadeco.

Eignirnar sem nú voru seldar fóru í opið söluferli í vor. Um er að ræða húsnæði sem skráð er á samtals 231 fastanúmer eða um 28% af heildarfermetrafjölda þess húsnæðis sem Kadeco hefur haft umsýslu með fyrir hönd íslenska ríkisins.

Haft er eftir Kjartani Þór Eiríkssyni, framkvæmdastjóra Kadeco, í tilkynningunni að salan sýni að framundan sé uppbygging á svæðinu. „Þessi eignasala er enn eitt skrefið sem Kadeco stígur í átt að þeim markmiðum sem að var stefnt þegar félagið var stofnað og ríkið tók við eignum varnarliðsins hér á Ásbrú. Salan er ekki síður ánægjuefni fyrir samfélagið hér á Reykjanesi. Hún er staðfesting á þeim uppgangi og uppbyggingu sem átt hefur sér stað og framundan er hér á svæðinu og sýnir að einkaaðilar eru reiðubúnir til þess að leggja verulegt fjármagn til þeirrar uppbyggingar til framtíðar.“

Segir Kjartan heildarfjárfestingu á svæðinu nú þegar orðna á annað hundrað milljarða króna og þar muni mestu um uppbyggingu gagnavera. „Við teljum að nálægð við Keflavíkurflugvöll skapi mikil tækifæri til frekari uppbyggingar og trúum því að hún verði enn kraftmeiri en áður með aðkomu nýrra aðila að verkefninu sem koma mun öllu samfélaginu hér til góða. Í dag búa um 2.500 manns á Ásbrú og á annað hundrað fyrirtæki eru hér með starfsemi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert