Alelda á þjóðveginum

Bifreiðin var alelda þegar slökkvilið bar að garði.
Bifreiðin var alelda þegar slökkvilið bar að garði. Ljósmynd/Lögreglan á Vesturlandi

Eldur kom upp í fólksbíl á þjóðveginum rétt sunnan við Búðardal í Dölum um klukkan 18:30 í gærkvöldi. Í bifreiðinni voru þrjú ungmenni sem voru á leiðinni frá Búðardal suður á bóginn. Þau höfðu því ekki ekið lengi þegar þau urðu vör við reyk í vél bílsins.

Skessuhorn, fréttveita Vesturlands, greindi fyrst frá málinu

„Það kviknar í út frá vélarhúsi bílsins þannig þetta er líklega eitthvað út frá rafmagni,“ segir Jóhannes Haukur Hauksson, slökkviliðsstjóri slökkviliðs Dalabyggðar. Ungmennin urðu vör við reyk úr hanskahólfi bifreiðarinnar. Ákváðu því að stíga út og hringja í 112.

Slökkvilið Dalabyggðar var skammt undan og mætti um tíu mínútum eftir að útkall barst en þá var bifreiðin alelda. „Þetta er rosalegt fljótt að gerast í svona bílum en síðan var líka mjög hvasst úti þannig þetta gerðist enn hraðar," segir Jóhannes Haukur.  Hann kveðst ekki þekkja aldur bílsins, sem var fernra dyra.

Þegar búið var að slökkva eldinn fór slökkviliðið í að fjarlægja flak bílsins og hreinsa veginn áður en opnað var fyrir umferð á ný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert