Gæti tekið nokkra daga að moka

Snjómokstur er í fullum gangi á höfuðborgarsvæðinu.
Snjómokstur er í fullum gangi á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Snjómokstur í íbúðagötum í Reykjavík er ekki hafinn og gæti tekið einhverja daga að ná tökum á ástandinu í húsagötum. „Það eru bara öll tæki úti að vinna,“ segir Bjarni Brynjólfsson, upplýsingafulltrúi hjá Reykjavíkurborg, í samtali við mbl.is. „Þetta eru um fjörutíu tæki sem eru úti að moka.“

Bjarni svarar eingöngu fyrir mokstur á vegum Reykjavíkurborgar og þau verkefni sem borgin sinnir í sínu umdæmi en unnið er eftir áætlun borgarinnar um snjóhreinsun og hálkuvarnir. Reynt er að halda öllum stofnbrautum og aðalleiðum í gangi og hefur það forgang fram yfir íbúðagötur og hefur mokstur gengið nokkuð vel að sögn Bjarna.

Fannfergi í Kórahverfi í Kópavogi.
Fannfergi í Kórahverfi í Kópavogi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Í Reykjavík sinna 10 bílar snjómokstri á stofnbrautunum og um 18 önnur tæki aðstoða við að hreinsa stofn- og tengibrautir. Þá eru 8 dráttarvélar notaðar við mokstur gatna, stíga og gangstíga. „En það verður ekki farið í húsagötur strax og það tekur nokkra daga að ná tökum á því,“ segir Bjarni.

Snemma í nótt var farið af stað og hafist handa við snjómokstur að sögn Bjarna og hafa tækin verið í gangi í alla nótt við að moka. „Þetta er talsvert mikið afl sem við höfum til þess að moka en þetta tekur náttúrulega tíma. Fólk verður að átta sig á því að þetta gerist ekki bara eins og hendi sé veifað, ekki við svona aðstæður,“ útskýrir Bjarni, sem brýnir fyrir fólki að vera ekki á ferðinni á vanbúnum bílum. Það sem helst tefji fyrir mokstri sé þegar fólk fer af stað, festi sig og sé þar af leiðandi fyrir þegar verið er að ryðja götur.

Um 40 tæki sinna snjómokstri í Reykjavík í dag.
Um 40 tæki sinna snjómokstri í Reykjavík í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Þar til lögregla og almannavarnir gefa það út að það sé óhætt að fara af stað, bara að hlíta þeim tilmælum að vera ekki að fara af stað og festa sig einhvers staðar og valda þar með meiri vandræðum en orðin eru,“ segir Bjarni. „Skilaboðin frá okkur eru bara þau að við erum að vinna eins hratt og mögulegt er að því að leysa málið.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert