„Þetta er svakalegt kjaftshögg“

Með nýjum vegi um Gufudalssveit er ætlunin að færa Vestfjarðaveg …
Með nýjum vegi um Gufudalssveit er ætlunin að færa Vestfjarðaveg nr. 60 af Ódrjúgshálsi og Hjallahálsi og niður á láglendið við Breiðafjörð. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Þetta er svakalegt kjaftshögg,“ segir Haukur Már Sigurðsson, einn þeirra sem standa á bak við undirskriftasöfnunina þar sem mótmælt er ákvörðun samgönguráðherra um að fresta vegaframkvæmdum í Gufudalssveit á Vestfjörðum.

Eins og bátur hafi farist 

Haukur Már, sem býr á Patreksfirði, segir að ákvörðunin um að fresta framkvæmdunum hafi haft mikil áhrif á almenning. „Sumir hafa talað um ofsareiði en ég finn hana reyndar ekki hjá neinum. Mér leið fyrstu dagana og aðeins enn þá eins og það hafi orðið stórt slys í byggðarlaginu, eins og það hafi bátur farist. Það er svoleiðis stemning, miklu frekar en reiði. Menn eru sárir inn að hjartarótum,“ greinir hann frá.

Glaðhlakkalegir þingmenn

Haukur nefnir að frestunin hafi valdið miklum vonbrigðum því loforð hafi verið gefin um annað. „Sérstaklega í ljósi þess að þeir hafa verið svo glaðhlakkalegir þingmennirnir að undanförnu og sagt að þetta sé í höfn og að við höfum ekkert að óttast,“ segir hann.

„Menn hafa verið að byggja upp ferðaþjónustufyrirtæki og fjárfesta í laxeldi og fiskvinnslunni, allt í trausti þess að við séum að komst inn á eðlilega markaði með þetta og getum treyst flutningakerfinu okkar. Þetta er stærra mál en að fá bara veginn. Efnahagskerfið okkar þolir þetta ekki.“

mbl.is/Helgi Bjarnason

Sjálfstæðisþingmenn á leið vestur

Að sögn Hauks eru frekari mótmæli ekki fyrirhuguð. Til stóð að byrja á undirskriftasöfnuninni og í framhaldinu að boða til almenns stjórnmálafundar í næstu eða þarnæstu viku. Ekki er ljóst hvort af honum verður, enda hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins boðað komu sína vestur á föstudaginn.

Jafnframt ætla menn að bíða eftir ríkisstjórnarfundinum sem fer fram á föstudag og sjá svo til með frekari viðbrögð.

„Við munum ekki hætta eða gefa tommu eftir fyrr en við erum búin að sjá lyktir mála. Við grípum þá til frekari aðgerða ef þörf krefur.“  

Haukur Már Sigurðsson á Pateksfirði.
Haukur Már Sigurðsson á Pateksfirði. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert