Vestfirðingar ákalla landsmenn

Með nýjum vegi um Gufudalssveit er ætlunin að færa Vestfjarðaveg …
Með nýjum vegi um Gufudalssveit er ætlunin að færa Vestfjarðaveg nr. 60 af Ódrjúgshálsi og Hjallahálsi og niður á láglendið við Breiðafjörð. mbl.is/Helgi Bjarnason

Hátt í 2.000 manns hafa tekið þátt í undirskriftasöfnun á netinu vegna ákvörðunar samgönguráðherra um að fresta framkvæmdum í Gufudalssveit á Vestfjörðum.

Í greinargerð sem fylgir undirskriftasöfnuninni kemur fram að íbúar á Vestfjörðum séu að senda ákall til allra landsmanna um að skrifa undir áskorunina til að Alþingi standi við fyrirheit um boðaðar framkvæmdir í Gufudalssveit. Um er að ræða lokaáfanga leiðarinnar um sveitina, frá Bjarkalundi til Flókalundar.

„Mikið er í húfi. Byggð á sunnanverðum Vestfjörðum á allt sitt undir því að helsta lífæð samfélaganna til höfuðborgarsvæðisins byggist á heilsársvegi í ætt við aðra helstu þjóðvegi landsins. Leiðin um Ódrjúgsháls og Hjallaháls er með hættulegri fjallavegum landsins og gjarnan farartálmi um vetur. Krafan er einföld. Hnekkið ákvörðun ráðherra og tryggið fjármagn til þessara framkvæmda strax,“ segir í greinargerðinni.

Þetta myndband tók Gísli Einar Sverrisson frá Patreksfirði upp til að varpa ljósi á ástand vegarins í Gufudalssveit:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert