Hefur játað árásina

Lögreglan handtók einn hinna grunuðu í bíl í Skógarlundi á …
Lögreglan handtók einn hinna grunuðu í bíl í Skógarlundi á Akureyri í kjölfar árásarinnar í Kjarnaskógi. mbl.is

Karlmaður hefur játað að hafa stungið mann í Kjarnaskógi á Akureyri á föstudaginn langa. Maðurinn var stunginn tvívegis í lærið. Hann var fluttur á sjúkrahús í kjölfar árásarinnar en er á batavegi.

Þrír voru hnepptir í gæsluvarðhald vegna málsins, tveir karlar og ein kona. Þeim hefur nú öllum verið sleppt úr haldi. Lögreglan er að ljúka við rannsókn sína, telur málið að mestu upplýst og mun því senda það áfram til saksóknara fljótlega sem mun í framhaldinu taka ákvörðun um ákæru.

Samkvæmt upplýsingum Gunnars Jóhannssonar, yfirmanns rannsóknardeildar lögreglunnar á Akureyri, hafa allir aðilar málsins komið við sögu lögreglu áður. Hann segir fólkið þekkjast og til ágreinings og deilna hafi komið þess á milli sem enduðu með árás um miðjan dag í Kjarnaskógi. Einn hefur nú játað verknaðinn.

Í upphafi voru fimm ungmenni handtekin. Þau eru öll fædd á árunum 1990-1999 og íslensk. Einn úr hópnum er enn undir lögaldri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert