Ekki eiga öll mál heima í dómskerfinu

„Sátt er félag fyrir alla sem hafa áhuga á að …
„Sátt er félag fyrir alla sem hafa áhuga á að nota aðferðafræði sáttamiðlunar til að leysa deilumál.“ mbl.is/Golli

Sáttamiðlarar eru ung stétt á Íslandi en hún fer þó stækkandi. Enn sem komið er hefur verið lítið um að fólk sé í fullu starfi hér á landi sem sáttamiðlarar, flestir sinna því í hlutastarfi. Sáttamiðlun er því frekar nýtilkomið fyrirbæri á Íslandi og ekki langt síðan boðið var upp á slíkt nám í háskólum hér.“

Þetta segir Lilja Bjarnadóttir lögfræðingur sem fór til Bandaríkjanna að loknu laganámi hér heima og lærði þar lausn deilumála með áherslu á sáttamiðlun, en hún er formaður Sáttar, félags um sáttamiðlun.

„Háskólinn í Missouri, þar sem ég var í náminu, er meðal þeirra fremstu í heiminum í sáttamiðlun og þegar ég kom heim ætlaði ég að sigra Ísland með sáttamiðlun. En ég rakst á þónokkra veggi og komst fljótt að því að margir vissu í raun lítið um hvað sáttamiðlun væri. Sátt, félag um sáttamiðlun, var stofnað árið 2005 og hefur meðvitund um úrræðið aukist.

Mér finnst rosalega skemmtilegt að vera þátttakandi í því að byggja upp þetta svið hér á landi,“ segir Lilja, sem starfar bæði sem lögfræðingur og sáttamiðlari.

Vænlegra og ódýrara að ná sáttum en að fara dómstólaleið

„Sátt er félag fyrir þá sem hafa áhuga á sáttamiðlun, en félagið er ekki lengur aðeins klúbbur þeirra sem hafa lært sáttamiðlun, heldur er það opið fyrir alla þá sem vilja koma að því á einn eða annan hátt að innleiða og læra meira um sáttamiðlun sem svo getur nýst í samfélaginu. Þetta er félag fyrir alla sem hafa áhuga á að nota aðferðafræði sáttamiðlunar til að leysa deilumál, en það er oft vænlegri kostur og miklu ódýrara en að fara dómstólaleiðina.

Sáttamiðlun má nota til dæmis í ágreiningsmálum í skólum og á vinnustöðum, í umgengnis- og forsjárdeilum, fasteignakaupum, leigumálum og nánast hverju sem er þar sem aðilar geta á annað borð samið um útkomuna,“ segir Lilja sem stofnaði einnig sitt eigið fyrirtæki sem heitir Sáttaleiðin, en þjónustan þar miðar fyrst og fremst að því að aðstoða fyrirtæki við að leysa úr ágreinings- og deilumálum á sem auðveldastan hátt.

„Þar leggjum við áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir til þess að koma í veg fyrir að deilur stigmagnist.“

Ágreiningur getur verið margskonar og þá er gott að hafa …
Ágreiningur getur verið margskonar og þá er gott að hafa möguleika á að leita til fagfólks til að greiða úr málunum og ná sátt. Ljósmynd/Getty


Sálfræðingar og prestar

„Þegar fólk leitar til Sáttar með ágreiningsmál, þá bendir félagið á fagaðila sem geta hjálpað til með sáttamiðlun. Við erum með lista yfir starfandi sáttamiðlara á heimasíðunni okkar sem við bendum fólki á, en á honum er fólk sem hefur lokið námi í sáttamiðlun og gæti komið að gagni. Þarna er fólk með mismunandi hæfni og hefur sérhæft sig í ólíkum málum, og það fer eftir því hvaða aðstæður eru uppi hverju sinni, til hvaða aðila er best að leita. Á þessum lista eru meðal annars sálfræðingar, prestar og lögfræðingar,“ segir Lilja og bætir við að sáttamiðlari sé ekki lögverndað starfsheiti og því geti verið fleiri sáttamiðlarar starfandi sem ekki eru í félaginu Sátt.

„En auðvitað hvetjum við alla sem starfa á þessum vettvangi til að vera í félaginu.“

Nágrannadeilur algengastar

Lilja segir að frá því hún tók við sem formaður Sáttar fyrir einu ári séu algengustu málin sem þau fái fyrirspurnir um snúast um nágrannadeilur.

„Fólk veit oft ekki hvernig það getur leyst slík mál af því þau eru ekki endilega þess eðlis að vera dómsmál en þau geta valdið miklu angri í daglegu lífi fólks. Fjölskyldumálin eru líka algeng, skilnaðarmál, umgengnismál og forsjárdeilumál. Svo er líka hægt að nota sáttaleiðina í viðskiptadeilum eða vegna erfiðra samskipta á vinnustöðum sem og í mörgum öðrum málaflokkum.“ Lilja tekur fram að á síðustu árum hefur sú nýjung verið tekin upp í barnalögum að sýslumaður sinni sáttameðferð í umgengnis- og forsjármálum og hjálpi foreldrum barna að komast að samkomulagi um umgengni í kjölfar skilnaðar.

„En fólk þarf ekki endilega að fara til sýslumanns með slík mál, það getur líka farið til sjálfstæðs sáttamiðlara til að leita sátta. Það er val.“

Að koma í veg fyrir deilur

„Fólk getur líka leitað til okkar til þess að reyna sáttamiðlun í málum sem ekki er hægt að fara með fyrir dómstóla, til dæmis er ekki hægt að fara fyrir dómstóla til að fá afsökunarbeiðni, sem getur skipt einhvern aðila í ágreiningsmáli miklu, og getur verið stór þáttur í sáttinni. Sáttamiðlun snýst oft um að leysa undirliggjandi samskiptavanda, á meðan dómsmál snúast meira um peninga. Í starfi mínu hjá fyrirtækinu mínu, Sáttaleiðinni, hef ég mikið verið að hjálpa fólki vegna samskiptavanda á vinnustöðum og þá ekki síst hvernig hægt er að koma í veg fyrir deilur. Og líka hvernig má nýta aðferðarfræði sáttamiðlunar til að fólki líði betur, til dæmis í vinnunni. Það eiga ekki öll mál heima í dómskerfinu. Og þó að fólk fái einhverja niðurstöðu í dómskerfinu er ekki þar með sagt að allir málsaðilar séu sáttir við þá niðurstöðu. Sigurvegarinn situr kannski uppi með rosalegan lögfræðikostnað og er stundum ekki búinn að fá fram það sem hann vildi þegar hann fór af stað. Sáttaleiðin gefur fólki kost á að fara þá leið að finna lausn sem hentar og þegar fólki tekst að semja þá eru það góð málalok. En það er ekki þar með sagt að það takist alltaf, það er undir deiluaðilum komið. Báðir deiluaðilar verða að samþykkja niðurstöðuna til að það verði eitthvert samkomulag, það er grundvöllurinn að sáttamiðluninni. Það er ekkert endilega þannig að aðilar mætist á miðri leið, að báðir gefi eftir, því stundum finnum við einhvern kost sem fullnægir hagsmunum beggja. Þetta snýst um að finna lausnarmiðaða nálgun þannig að báðir deiluaðilar geti staðið uppi sem sigurvegarar í lokin.“

Lilja segir að Sátt hafi nýlega farið af stað með námskeið sem eru opin öllum þeim sem hafa áhuga á að fræðast um hvernig sáttamiðlun fari fram.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert