„Við erum í forréttindastöðu“

Helga Þórólfsdóttir félagsráðgjafi á Evrópuráðstefnu félagsráðgjafa í Hörpu.
Helga Þórólfsdóttir félagsráðgjafi á Evrópuráðstefnu félagsráðgjafa í Hörpu. mbl.is/Hanna

Landamæri eru manngerð. Fólk er innan þeirra og utan. Þau eru einnig notuð til að útiloka aðra frá okkur sjálfum. Það er algengt viðhorf bæði í hjálparstarfi og í fjölmörgum samfélögum að nota; við og hinir, til skilgreiningar á þeim sem þurfa á hjálp að halda og þar með er ákveðinni fjarlægð haldið. Ástæðan er meðal annars ólík sýn þeirra sem vilja hjálpa og þeirra sem þurfa á hjálp að halda. Þetta kom fram í erindi Helgu Þórólfsdóttur félagsráðgjafa sem nefndist Crossing Borders: Social Work and Humanitarian Action.

Líkt og titill erindisins vísar til var fjallað um landamæri í víðum skilningi þess og beindi Helga sjónum sínum einkum að þeim sem komast milli landamæra óhindrað líkt og flestir Vesturlandabúar ólíkt þeim sem er verið að koma til aðstoðar. Henni var tíðrætt um hvernig við tölum um hina (e. other) og notum jafnvel „othering“ yfir það þegar við tölum um fólk, sem er hluti af okkur en eru samt hinir, þrátt fyrir að þeir hafi orðið fyrir skipulögðu ofbeldi án þess að vera sjálfir í neinum deilum. 

Hvað drífur Vesturlandabúa áfram í hjálparstarfi?

Helga hefur unnið að hjálparstarfi víða um heim frá árinu 1993 þegar hún fór í fyrsta skipti til Sómalíu í hjálparstarf. Þar átti hún samtal við sómalskar konur sem hefur verið uppspretta margvíslegra spurninga æ síðan.

„Ég var komin inn í eldhús á hjálparstöð í Sómalíu og spjallaði við sómalskar konur sem spurðu mig spurninga sem brunnu á þeim: „Hvers vegna yfirgefur hjálparstarfsfólk frá Vesturlöndum öryggi sitt í heimalandi sínu til að hjálpa öðrum úti í heimi. Hvers vegna líkar þeim ekki við fólkið sem það er að hjálpa. Það er alveg sama hvað við gerum, við virðumst aldrei geta gert það rétt. Hvers vegna eru þið ekki hamingjusöm ef þið getið farið?“ Ég gat ekki svarað þessum spurningum og ekki heldur núna,“ sagði Helga.

Evrópuráðstefna félagsráðgjafa var vel sótt.
Evrópuráðstefna félagsráðgjafa var vel sótt. mbl.is/Hanna

Mikilvægt að vinna með fólki 

Hún benti á að það vilji gjarnan gleymast að vinna með fólki innan frá í hjálparstarfi. Rík tilhneiging á þessum tíma og er jafnvel enn er að koma með boð og skipanir að ofan í stað þess að vinna með fólki. Ekki má gleyma að þeir sem eru utanaðkomandi hafa mikil völd.

„Þú þarft að þekkja stöðuna þína gagnvart þeim sem þú hjálpar. Þú þarft að þekkja sjálfan þig og hvaðan þú kemur því við erum í forréttindastöðu. Við getum flest ferðast á milli landamæra á meðan stór hópur fólks flýr stríðshörmungar eða eygir von um betra líf í öðrum löndum og býr í einskismannslandi á meðan,“ segir Helga. Í þessu samhengi benti hún á mikilvægi þess að sjá heildarmyndina í hjálparstarfi því það vill oft gleymast. Hún sjálf áttaði sig fljótlega á því eftir að hún byrjaði í hjálparstarfi að hana skorti heildarsýnina.

Á þessum tíma, fyrir tæplega tuttugu árum, var ekki mikil spurn eftir félagsráðgjöfum í hjálparstarfi heldur var frekar sóst eftir fólki með þekkingu á lögfræði, tæknimenntun og tungumálakunnáttu þrátt fyrir að félagsráðgjafar væru menntaðir til þess að vinna með fólki og kerfinu sjálfu sem ætti að gegna því hlutverki að halda utan um það. „Það hefur komið mér á óvart hversu fáum félagsráðgjöfum ég hef unnið með í þessum aðstæðum á þessum tíma,“ segir Helga. Þessa má geta að hún hefur starfað sem félagsráðgjafi frá árinu 1981 þegar hún útskrifaðist sem slíkur frá háskólanum í Lundi í Svíþjóð.

Evrópuráðstefna félagsráðgjafa.
Evrópuráðstefna félagsráðgjafa. mbl.is/Hanna

Tungumálið og orðræðan

Orð eru til alls fyrst.  Tungumálið er mikilvægt í því hvernig við lítum á okkur sjálf, heiminn og annað fólk. Það þarf að vanda orðavalið og passa að festast ekki í því að flokka fólk og skilja okkur í sundur frá því með því að nota „við og hinir“. Þegar það er gert verður meiri hætta á að „hinir verða hættulegir. Að hjálpa öðrum og morð og stríð eru of nátengd fyrirbæri,“ segir Helga.

Hún bendir á að góður ásetningur um að hjálpa fólki sé ekki nóg þótt hann sé góðra gjalda verður. Það þarf að ná heildarmyndinni. Í því samhengi bendir hún á að það þurfi að minna yfirvöld á þá sem eiga um sárt að binda og starfa með sérfræðingum.

Að lokum tók hún undir orð Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, sem fór með ljóðlínur úr ljóðinu Heim­sókn eft­ir Tóm­as­ Guðmunds­son við setninguna í morgun. Í því seg­ir: „Því meðan til er böl sem bætt þú gast, og bar­ist var á meðan hjá þú sast, er ólán heims­ins einnig þér að kenna.“ 

Ráðstefnan í Hörpu stefndur yfir í tvo daga. Fjölmargar málstofur verða einnig í boði á ráðstefnunni undir stjórn bæði íslenskra og erlendra félagsráðgjafa.

Yfir 500 félagsráðgjafar og aðrir þátttakendur, þar af yfir 300 erlendis frá, taka þátt í ráðstefnunni sem stendur yfir fram á þriðjudag. Þar verða í brennidepli málefni flóttafólks og innflytjenda, barna, fjölskyldna og aldraðra, hjálparstarf og fleira en eitt helsta þema Evrópuráðstefnunnar að þessu sinni er sjálfbærni samfélaga og félagsráðgjöf, sem er jafnframt þema næstu tveggja ára í áætlunum Alþjóðasamtaka félagsráðgjafa (IFSW).

 Hér má sjá dagskrána. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert