Elsta kaupfélaginu slitið

Kaupfélagshúsið, aðal verslunarhús KÞ í miðbæ Húsavíkur.
Kaupfélagshúsið, aðal verslunarhús KÞ í miðbæ Húsavíkur. mbl.is/Helgi Bjarnason

Ákveðið hefur verið að slíta elsta samvinnufélagi landsins, Kaupfélagi Þingeyinga. Félagið hefur ekki haft rekstur með höndum í átján ár. Það á engar eignir og skuldar engum neitt, að því best er vitað.

Kaupfélag Þingeyinga var stofnað á Þverá í Laxárdal 20. febrúar 1882 og er því 135 ára gamalt. Á tuttugu ára afmæli þess var Sambandskaupfélag Þingeyinga stofnað á Ystafelli í Köldukinn en það varð síðar að Sambandi íslenskra samvinnufélaga, SÍS.

Kaupfélag Þingeyinga var með fjölbreytta atvinnustarfsemi á síðustu öld, eins og mörg kaupfélög á þeim tíma. Það rak mjólkursamlag, sláturhús með kjötvinnslu og fjölbreytta verslun á Húsavík og víðar á félagssvæðinu. Það var stærsti hluthafinn í Fiskiðjusamlagi Húsavíkur og undir það síðasta hluthafi í nýsköpunarfélaginu Aldin sem framleiddi vörur úr innfluttum trjám. Félagið komst í greiðsluþrot á árinu 1999 og fékk heimild til greiðslustöðvunar.

Enginn tapaði á uppgjörinu

Allar eignir félagsins voru seldar og skuldir greiddar og það hætti starfsemi. Kaupfélag Eyfirðinga keypti mjólkursamlagið og sláturhúsið. Tryggvi Finnsson, sem sæti á í stjórn KÞ og er annar af tveimur löggiltum skilanefndarmönnum félagsins, segir að söluandvirði eignanna hafi nokkurn veginn dugað fyrir skuldum og enginn sem átti inni fé hjá félaginu hafi tapað á þessu skuldauppgjöri.

Félagið hefur starfað síðan, án þess að hafa nokkra starfsemi. Tryggvi segir að það hafi staðið í fólki að leggja þetta fornfræga félag formlega niður. Komið hafi til tals að sameina það við KEA en ekki verið áhugi á því. Einnig hafi verið athugað með að finna því annað hlutverk. Það hafi heldur ekki gengið upp. Segir hann erfitt að halda úti félagi nema félagsmennirnir hafi allir sömu hagmunina. Í KÞ eru á annað þúsund félagsmenn sem dreifðir eru um allan heim.

Töluverður kostnaður er við að halda úti félagi, halda þarf aðalfundi og auglýsa þá með ákveðnum hætti. Niðurstaðan varð að slíta félaginu og var það samþykkt á félagsfundum sem haldnir voru í mars og apríl sl. helgi@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »