Sjálfsvarnarnámskeið til styrktar konum

Konur sýndu bardagaíþróttir á viðburði samtakanna fyrr í vetur.
Konur sýndu bardagaíþróttir á viðburði samtakanna fyrr í vetur. mbl.is/Freyja

Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi (W.O.M.E.N) halda í kvöld sjálfsvarnarnámskeið fyrir konur á öllum aldri og uppruna. Er þetta í fyrsta sinn semþau halda slíkt námskeiðið, en samtökin standa fyrir svokölluðu Þjóðlegu eldhúsi fyrsta fimmtudag í hverjum mánuði á tímabilinu september til júní.

Þar taka konur og vinkonur frá ýmsum löndum sig saman og elda mat frá sínu heimalandi og fræða gesti um matinn, landið og fólkið sem þar býr. Þessir viðburðir hafa verið mjög vinsælir og eru opnir öllum, ekki aðeins konum af erlendum uppruna.  

Frá Þjóðlegu eldhúsi fyrr í vetur.
Frá Þjóðlegu eldhúsi fyrr í vetur. mbl.is/Freyja

Þegar eitt slíkt boð sem átti að vera haldið í kvöld féll niður kom sú hugmynd að halda þess í stað sjálfsvarnarnámskeið en Angelique Kelley, formaður samtakanna, hafði séð auglýsingu um sjálfsvarnarnámskeið sem haldið var á Borgarnesi í apríl. Kom þá hugmyndin að fá mæðgurnar Maríu Guðrúnu Sveinbjörnsdóttur og Vigdísi Helgu Eyjólfsdóttur sem héldu námskeiðið í Borgarnesi til þess að koma og styrkja konur í Reykjavík líka.

Styrkja sig og aðra í leiðinni

Mæðgurnar voru nýlega valdar til þess fara með landsliðinu í Taekwondo til Grikklands og taka þar þátt á Evrópumótinu fyrir hönd Íslands. Þegar kom að því að safna peningum í ferðina datt þeim í hug að halda sjálfsvarnarnámskeið en þær hafa haldið tvö slík námskeið hingað til.

Auk Taekwondo hefur María Guðrún lengi æft hinar ýmsu bardagaíþróttir, þar á meðal Jiu Jitsu og Karate. Ásamt Vigdísi dóttur sinni eru þær einu konurnar í íslenska landsliðinu í íþróttinni. Í maí síðastliðnum fóru þær á vegum landsliðsins á Evrópumótið þar sem þær náðu góðum árangri í sitthvorum aldursflokknum, lenti María þar í níunda sæti og Vigdís því tuttugasta.

Það má því segja að sjálfsvörn sé eins konar áhugamál mæðgnanna en þær hafa meðal annars tekið þátt á sjálfsvarnarnámskeið hjá lífverði drottningarinnar í Danmörku. Þá kom ekkert annað til greina en að halda sjálfsvarnarnámskeið til að safna peningum fyrir utanlandsferðina.

Angelique Kelley, formaður samtakanna, og Zahra Mesbah, félagi í W.O.M.E.N.
Angelique Kelley, formaður samtakanna, og Zahra Mesbah, félagi í W.O.M.E.N. mbl.is/Freyja

Konur eru stekari en þær grunar

„Okkur fannst það góð hugmynd að styrkja aðrar konur líka og kannski fá okkur smá styrk í leiðinni,“ sagði María í viðtali við blaðamann. Þær eru einnig einu konurnar í landsliðinu fannst því sniðugt að vekja athygli á því að styrkja konur en María segir að konur séu oft mikið sterkari en þær grunar. „Okkur finnst voða gaman að kenna þetta“ segir María.

Námskeiðið í kvöld verður haldið í húsnæði Samtaka kvenna af erlendum uppruna við Túngötu 14 frá 20:00-22:00 og er frítt inn. Þeim sem hafa áhuga er bent á að skrá sig í gegnum netfangið angel@womeniniceland.is.

Samtök kvenna af erlendum uppruna eru sjálfboðaliðasamtök stofnuð á kvennafrídeginum 24. október 2004 og hafa starfað með það í huga að sameina konur af erlendum uppruna á Íslandi og veita hagsmuna- og áhugamálum þeirra rödd, eins og fram kemur á heimasíðu þeirra www.womeniniceland.is.

Angelique vill þakka samtökum Soroptimista á Íslandi sem hafa veitt samtökunum fjárhagsstyrk og gerir þeim kleift að halda þessa viðburði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert