Hugmyndir um nýjan völl í þessum mánuði

Laugardalsvöllur í núverandi mynd.
Laugardalsvöllur í núverandi mynd. Ljósmynd/KSÍ

Ríkisstjórnin samþykkti í dag að veita fjórum milljónum króna til hagkvæmniathugunar vegna stækkunar Laugardalsvallar, en vinna við slíka athugun er í fullum gangi og vonast er til að niðurstöður hennar verði kynntar síðar í mánuðinum.

Pétur Marteinsson hjá Borgarbrag, sem kemur að verkefninu ásamt þýska fyrirtækinu Lag­ar­dére Sport, segir í samtali við mbl.is að horft sé til þess að hugmyndir um nýjan Laugardalsvöll verði kynntar síðar í þessum mánuði, en þá munu liggja fyrir nokkrar sviðsmyndir ásamt öllum þeim forsendum sem þarf til að hagsmunaaðilar geti tekið ákvörðun um hvaða leið verði farin um framtíð vallarins.

Pétur segir að teymi bæði hér heima og erlendis vinni að verkefninu, en um sé að ræða verkfræðinga, arkitekta og lögfræðinga. Helstu hagsmunaaðilar verkefnisins eru KSÍ, Reykjavíkurborg sem eigandi vallarins og ríkið þar sem um þjóðarleikvang er að ræða.

Hann segir að reynt sé að vinna hratt að þessu máli, enda sé ákveðin tímapressa vegna áforma um að leikjafyrirkomulag landsleikja í Evrópu verði þannig að leikirnir fari fram í mars og nóvember, en slíkt getur stundum reynst nokkuð tvísýnt hér á landi miðað við núverandi ástand leikvangsins. Segir Pétur að fyrirkomulag svokallaðrar Evrópudeildar hefjist haustið 2018. „Eðlilega verður þetta ekki tilbúið þá, en við getum ekki farið í gegnum marga svona leiki og vonast eftir hentugum aðstæðum,“ segir hann.

Segir Pétur að ljóst sé að eitthvað þurfi að gera og sú ákvörðun að gera ekki neitt sé í raun ekki í boði vegna breytinganna með landsleikina. Segir hann að ef ekkert sé gert gæti það þýtt að Ísland þyrfti að spila landsleiki sína erlendis, „sem við viljum auðvitað ekki,“ segir Pétur.

Pétur Marteinsson hjá Borgarbrag.
Pétur Marteinsson hjá Borgarbrag. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert