Meirihluti andvígur inngöngu í ESB

AFP

Meirihluti Íslendinga er andvígur inngöngu í Evrópusambandið, eða 47,9%, að því er fram kemur í nýrri könnun MMR. 29% svarenda sögðust hlynnt eða mjög hlynnt því að Ísland gangi í ESB.

Könnunin var framkvæmd dagana 15. til 21. júní 2017 og var heildarfjöldi svarenda 1.017 einstaklingar, 18 ára og eldri.

Andstaða mældist hærri meðal þeirra sem styðja ríkisstjórnina (67,5%) en meðal þeirra sem styðja ekki ríkisstjórnina (36,2%). Þá mældist andstaða minni en hún var árin 2012 og 2013.

„Litlar breytingar hafa verið á afstöðu almennings gagnvart inngöngu Íslands í ESB undanfarin þrjú ár. Ef litið er hins vegar til samanburðar til seinni hluta ársins 2012 hefur andvígum fækkað um rúmlega 10 prósentustig þegar milli 60 og 65% Íslendinga kváðust andvígir inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Á sama tímabili hefur hlynntum fjölgað um 5 til 10 prósentustig,“ segir í frétt á vef MMR.

Fólk sem búsett var á höfuðborgarsvæðinu (34,3%) var hlynntara inngöngu Íslands í ESB en fólk sem búsett var á landsbyggðinni (19,8%). Auk þess mátti sjá að fólk í aldurshópnum 50 til 67 ára og með milljón á mánuði eða meira í heimilistekjur var líklegast til að vera hlynnt inngöngu Íslands í ESB í samanburði við fólk í öðrum aldurs- og tekjuhópum.

Þá var stuðningsfólk Framsóknar- (89,2%) og Sjálfstæðisflokksins (78,1%) líklegra en stuðningsfólk annarra hópa til að vera andvígt inngöngu Íslands í ESB. Aftur á móti var stuðningsfólk Samfylkingarinnar (77,3%) líklegast til að vera hlynnt inngöngu Íslands í ESB í samanburði við stuðningsfólk annarra flokka. Þá var fleira stuðningsfólk Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar, Pírata og Viðreisnar sem sagðist hlynnt inngöngu Íslands í ESB en kvaðst á móti inngöngu.

Frétt MMR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert