Ranghugmyndir um eikynhneigð algengar

Frá Gleðigöngu Hinsegin daga.
Frá Gleðigöngu Hinsegin daga. mbl.is/Freyja Gylfa

Hópur eikynhneigðs fólks (e. asexual) mun í ár ganga í fyrsta sinn saman í Gleðigöngunni, með það að markmiði að auka sýnileika eikynhneigðra. Gyða Bjarkadóttir, einn meðlima hópsins, segir að mjög margar ranghugmyndir séu uppi um eikynhneigð hér á landi.

Finna fyrir lítilli eða engri kynhvöt

Eikynhneigðir eru þeir sem finna fyrir lítilli eða engri kynhvöt eða hafa ekki áhuga á kynlífi með öðru fólki. Þó má segja að um sé að ræða skala, þar sem áhugi á kynferðislegu sambandi við aðra er misjafn eftir því hvar á skalanum eikynhneigt fólk er staðsett.

Sumt eikynhneigt fólk skilgreinir sig til að mynda sem graysexual, en það finnur þá fyrir lítilli kynhvöt. Aðrir skilgreina sig sem demi sexual, en þeir laðast þá ekki kynferðislega að fólki nema bera til þess tilfinningar eða þekkja það. Þá laðast margir eikynhneigðir tilfinningalega að öðru fólki án þess að vilja sofa hjá því. Gert er ráð fyrir að um 1% fólks í heiminum sé eikynhneigt.

Gyða Bjarkadóttir.
Gyða Bjarkadóttir.

Hélt að eitthvað væri að sér

„Persónulega vissi ég ekki af þessu fyrir rétt fyrir þrítugt,“ segir Gyða, sem er tæplega 32 ára gömul í dag. „Ég leitaði til lækna því ég hélt að eitthvað væri að mér. Hormónastarfsemin var í góðu lagi og ekkert fannst að mér, en þegar ég fann svo þessa skilgreiningu fann ég fyrir miklum létti,“ bætir hún við.

Gyða segir markmið hópsins vera að hjálpa fólki í sömu stöðu og hún var áður, enda séu mjög margir sem ekki viti hvað eikynhneigð er. „Fólk veit ekki að þetta er til og þess vegna langar okkur að vera sýnileg og hvetja fólk til að leita til okkar,“ segir hún.

Þá segir hún að margar ranghugmyndir séu uppi, og lítill skilningur sé á málefnum eikynhneigðra í samfélaginu. „Fyrst og fremst heldur fólk að maður hafi bara ekki fundið rétta einstaklinginn. Margir rugla þessu við að þetta sé val því sumir velja að stunda ekki kynlíf, en við löðumst bara ekki kynferðislega að öðrum,“ segir hún, en bætir við að vissulega laðist sumir eikynhneigðir kynferðislega að öðrum að einhverju leyti.

Vitundarvakning í heilbrigðisgeiranum mikilvæg

Hópurinn var fyrst stofnaður á lokuðum vettvangi á Facebook, en fyrr í sumar var búin til opin síða; Asexual á Íslandi, þangað sem hægt er að leita og hafa samband. „Þetta er ekki formlegt félag, en við lítum á þetta sem góðan stað til að fræða fólk,“ segir Gyða.

Til stóð að hópurinn myndi ganga saman í Gleðigöngunni í fyrra, en vegna skipulagsleysis tókst það ekki. Í ár hefur hópurinn hins vegar skipulagt sig betur, og tekur þátt af fullum krafti. „Við erum samt sem áður ekki mörg, heldur kannski bara um fimm,“ segir Gyða, en bætir við að mikilvægt sé að auka sýnileika.

Spurð um það hvað hún ráðleggi fólki sem er í sömu sporum og hún var áður, og heldur að það sé eitthvað að því segist Gyða hvetja fólk til að hafa samband við félagið á Facebook. Þá segist hún vonast til þess að vitundarvakning muni eiga sér stað, ekki síst í heilbrigðisgeiranum. „Það væri frábært að læknar gætu bent fólki á að kannski sé það eikynhneigt ef það kemur með spurningar af þessu tagi,“ segir Gyða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert