Umhverfing númer eitt til fólksins

Hugsjóna- og listamenn F.v. Þórdís Alda Sigurðardóttir, Anna Eyjólfsdóttir, Ragnhildur …
Hugsjóna- og listamenn F.v. Þórdís Alda Sigurðardóttir, Anna Eyjólfsdóttir, Ragnhildur Stefánsdóttir og Rúrí. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Fjórar myndlistarkonur opnuðu nýverið sýninguna Nr. 1 Umhverfing á Heilsustofnun Sauðárkróks og Safnahúsinu þar í bæ. Auk þess að sýna eigin verk leituðu þær eftir samstarfi við kollega sína sem rætur eiga að rekja í Skagafjörðinn. Markmiðið er að færa nútímamyndlist til almennings; fólks sem hefur ekki tækifæri til að njóta samtímalistar í nærumhverfi sínu í hefðbundnum sýningarsölum. Fleiri umhverfingar eru á döfinni annars staðar á landinu næstu árin.

Nafn sýningarinnar Nr. 1 Umhverfing, sem opnuð var með pompi og pragt á Heilsustofnun Sauðárkróks og Safnahúsinu þar í bæ 1. júlí, er ekki úr lausu lofti gripið. Það vísar til þess að fleiri sýningar verða settar upp með sama sniði í óhefðbundnum sýningarýmum umhverfis landið á næstu árum í samstarfi við heimamenn. Nr. 2 Umhverfing er handan hornsins þegar sú fyrsta verður tekin niður í næsta mánuði.

Hugmyndasmiðir og skipuleggjendur verkefnisins eru myndlistarmennirnir Anna Eyjólfsdóttir, sem jafnframt er sýningarstjóri, Ragnhildur Stefánsdóttir, Rúrí og Þórdís Alda Sigurðardóttir, en verk þeirra munu mynda kjarna sýninganna á hverjum stað.

„Hugmyndin er að færa nútímamyndlist í húsnæði á ýmsum stöðum á landinu þar sem hvorki er hefð né sérhönnuð húsakynni fyrir listsýningar. Framtakið er viðleitni til að koma nútímalist til almennings; fólks sem hefur ekki tækifæri til að njóta samtímalistar í nærumhverfi sínu, eins og allir ættu að eiga rétt á. Án listar er lífið svo miklu snauðara en með list,“ segja Anna og Rúrí.

Menningarauki

Listamennirnir hafa sérstakan augastað á stöðum þar sem listinni er alla jafna ekki gert hátt undir höfði og aðgengi heimamanna sem og sjúklinga og vistmanna á sjúkrastofnunum að listaheiminum er augljóslega takmörkunum háð. Þær segja mikla áskorun fólgna í að setja upp listsýningu á slíkum stöðum. „Við höfum verið á faraldsfæti milli Reykjavíkur og Sauðárkróks frá því snemma í vor að undirbúa sýninguna og ræða við alla sem málið varðar. Til dæmis aðra listamenn sem rætur eiga að rekja í byggðarlagið og við buðum að sýna verk sín á sýningunni. Í rými sem hannað er fyrir allt annað en listsýningar getur verið snúið að finna nútímalist hentugan stað. Spyrja þarf hæstráðendur hvort setja megi þau upp þarna eða hinum megin, mæla allt í krók og kima, ganga frá uppsetningu verkanna og þar fram eftir götunum.“

Í tilefni sýningarinnar gáfu þær út veglega sýningarskrá með greinum eftir Margréti Elísabetu Ólafsdóttur, list- og fagurfræðing, og Jón Ormar Ormsson og hafa haft í mörg horn að líta. „Heilmikil vinna og mikið vafstur,“ segja þær.

En þær töldu umstangið ekki eftir sér, enda verkefnið fyrst og fremst sprottið af hugsjón og metnaði. Verkefnið fékk nokkurn styrk frá sveitarfélaginu og ýmsum stofnunum í bænum. „Við höfum mætt miklum velvilja forráðamanna beggja stofnana og alls starfsfólks þeirra, og hefur verið einstaklega gefandi að vinna með þeim, ásamt öllum listamönnunum. Sýningin hefur og fengið mjög jákvæð viðbrögð. Heimamenn hafa fagnað þessum óvænta og jafnframt óhefðbundna menningarauka.“

Lífið og listin

Listaverkin á Nr. 1 Umhverfing skipta tugum og eru af ýmsum toga. Málverk, skúlptúrar, ljósmyndaverk, innsetningar og verk með textílívafi, svo fátt eitt sé talið. Þverskurður af íslenskri nútímamyndlist. Auk þess sem forsprakkarnir tefla fram eigin verkum eru þar listaverk níu annarra listamanna, sem allir hafa tengsl við byggðarlagið. „Nr. 2 Umhverfing mun að sama skapi hverfast að stórum hluta um verk listamanna sem tengjast viðkomandi héraði og einnig skiptum við út eigin verkum,“ útskýra Anna og Rúrí.

Listakonurnar ætla að fylgja sýningunni eftir allt til lokadags og kynna hana sem víðast. Þær hafa skoðað hana með áhugahópum og erlendum listamönnum og rabbað við þá um nútímalist í víðu samhengi. Með haustinu er í bígerð að bjóða grunn- og framhaldsskólanemendum upp á sams konar leiðsögn. „Við erum alltaf tilbúnar að ræða við gesti og gangandi um tilgang lífs og lista,“ segja þær.

Inntar nánar eftir því hver sá tilgangur sé fara þær að hlæja og Rúrí svarar: „Kirkjan hefur lengi átt erfitt með að útskýra þetta með tilgang lífsins, svo kannski höfum við ekki eina rétta svarið. En það er alltaf gaman og gagnlegt að ræða málin, þótt ekki fáist endanleg niðurstaða.“

„Aðalatriðið er að fólk, ekki síst sjúkir og aldraðir, velti lífinu fyrir sér í tengslum við og gegnum listina,“ segir Anna. „Með listina sem hjálpartæki,“ bætir Rúrí við og heldur áfram: „Á heilbrigðisstofnunum fer fram endurhæfing og sjúkraþjálfun fyrir líkamann. Sýning eins og Nr. 1 Umhverfing gæti þjónað sem endurhæfing fyrir andann og sálartetrið.“

Eins og umhverfingar úti um allt land á næstu árum væntanlega.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert