Frost í jörðu í innsveitum

mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Frost var í jörðu sums staðar í innsveitum í nótt samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Þó var það aðeins lítillega og frostið mest -0,9% stig í Húsafelli í Borgarfirði. Á Þingvöllum fór hitinn niður í frostmark. 

„Ekki er von á því að það frysti aftur næstu nótt, norðanáttin er að mestu gengin niður og bíða okkar nú nokkrir tiltölulega hlýir og sólríkir dagar þar sem hægviðrið verður ríkjandi að mestu. Gæti hámarkshiti náð 20 stigum um miðja viku ef allt gengur eftir,“ segir í hugleiðingum vakthafandi veðurfræðings á vefsíðu Veðurstofunnar.

Veðurhorfur næsta sólarhringinn gera annars ráð fyrir fremur hægri norðlægri átt eða hafgolu en norðvestan 5-13 metrum á sekúndu úti við norðausturströndina fram yfir hádegi. Skýjað verður á köflum austan til á landinu og sums staðar rigning öðru hverju á norðausturhorninu.

Víða verður léttskýjað annars staðar og hiti 8 til 18 stig að deginum, hlýjast sunnanlands. Þá verður sunnan og suðvestan 3-10 m/s á morgun og skýjað með köflum sunnan- og vestanlands, en bjartviðri í öðrum landshlutum. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast norðanlands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert