Andlát: Bragi Árnason

Bragi Árnason.
Bragi Árnason.

Bragi Árnason professor emeritus er látinn. Hann lést föstudaginn 8. september 82 ára að aldri.

Bragi var þekktastur fyrir rannsóknir á möguleikum vetnis sem orkubera fyrir bíla og skip og var gjarnan kallaður Professor Hydrogen eða Vetnisprófessorinn.

Bragi var fæddur 10. mars 1935 sonur hjónanna Árna Guðlaugssonar og Kristínar R. Sigurðardóttur.

Bragi nam efnafræði við háskólann í Munchen en var við framhaldsnám við Hafnarháskóla og Kjarnorkurannsóknarstofnunina í Risö. Bragi var Dr. Scient frá HÍ 1976 og starfaði lengst af við rannsóknir hjá Háskóla Íslands. Bragi skrifaði fjölda vísindagreina, þá helst um orkumál og nýtingu vetnis sem orkubera. Hann skrifaði nokkrar bækur og ber hæst Groundwatersystems of Iceland.

Bragi fékk fjölda viðurkenninga fyrir störf sín. Má þar nefna Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 1999, Alþjóðlegu tækniverðlaunin á sviði umhverfismála 2001, Heiðursorðu Sambandslýðveldisins Þýskalands (Verdienstkreuz 1. Klasse) og Jules Verne verðlaunin, veitt af International Asociaton for Hydrogen Energy 2004. 

Rannsóknir Braga hlutu heimsathygli og voru viðtöl birt við hann í mörgum af stærstu tímaritum heims ásamt fjölda þátta í erlendum sjónvarpsstöðvum. 

Eiginkona Braga var Sólveig Rósa Jónsdóttir en hún lést 2009. Bragi lætur eftir sig fjórar uppkomnar dætur, níu barnabörn og tvö langafabörn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert