Þorgeir Ingi settur umboðsmaður Alþingis

Þorgeir verður settur umboðsmaður Alþingis samhliða kjörnum umboðsmanni til áramóta
Þorgeir verður settur umboðsmaður Alþingis samhliða kjörnum umboðsmanni til áramóta mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Þorgeir Ingi Njálsson, héraðsdómari, verður á tímabilinu 1. september til og með 31. desember settur umboðsmaður Alþingis samhliða kjörnum umboðsmanni, Tryggva Gunnarssyni en Þorgeir mun taka við embætti dómara við Landsrétt þann 1. janúar næstkomandi.

Þorgeir mun sinna daglegum störfum umboðsmanns og afgreiðslu mála á meðan kjörinn umboðsmaður mun vinna að samantekt á fræðsluefni fyrir starfsfólk stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga sem Alþingi fól umboðsmanni Alþingis að vinna árið 2013. 

Unnið hefur verið að gerð fræðsluefnisins undanfarin ár en af hálfu umboðsmanns hefur takmarkaður tími gefist til að sinna verkefninu vegna anna við hefðbundin verkefni umboðsmanns, fyrst og fremst vegna afgreiðslu kvartana. Í fræðsluefninu verður fjallað um reglur sem gilda um starfshætti stjórnsýslunnar og þær sérstöku reglur sem gilda um meðferð mála þar. Nú er áformað að ljúka við gerð þessa fræðsluefnis og miðað er við að það komi út á árinu 2018 en þá verða 30 ár liðin frá því að embættis umboðsmanns Alþingis tók til starfa. 

Þorgeir Ingi Njálsson hefur síðustu ár verð héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjaness, en hann var skipaður í embætti héraðsdómara 1. júlí 1992. Frá 1. maí 2008  til 1. júlí 2017 gegndi hann embætti dómstjóra við Héraðsdóm Reykjaness. Frá 1. janúar 2018  verður Þorgeir Ingi dómari við Landsrétt.  Hann starfaði hjá umboðsmanni frá 16. september 1997 til 15. ágúst 1998 og frá 1. júní 2000 til 1. júní 2001 sem skrifstofustjóri embættisins. Hann var settur umboðsmaður Alþingis samhliða kjörnum umboðsmanni frá 15. febrúar til og með 30. júní 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert