„Við tikkum í alls konar box“

Konurnar á námskeiðinu heimsóttu Alþingi í fyrrakvöld og gengu um …
Konurnar á námskeiðinu heimsóttu Alþingi í fyrrakvöld og gengu um húsið undir leiðsögn tveggja þingmanna Vinstri-grænna, þeirra Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur og Andrésar Inga Jónssonar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kvenréttindafélagið hefur undanfarið staðið fyrir námskeiði fyrir konur af erlendum uppruna um stjórnmál á Íslandi með það í huga að auka þátttöku þeirra í pólitískri umræðu. Sabine Leskopf varaborgarfulltrúi er kennari á námskeiðinu. Hún vonast til að að því loknu gangi konurnar út með áætlun um hvernig þær geti byrjað að taka til hendinni í stjórnum, nefndum og ráðum á ýmsum vettvangi.

„Ég vann mikið í kosningabaráttunni fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2014 og það sem kom mér á óvart þá var ekki bara hversu erfitt það var að ná til innflytjenda yfirleitt, heldur hversu margir vissu ekki af kosningarétti sínum,“ segir Sabine. Oft sé mjög erfitt að virkja innflytjendur til þátttöku. „Það er vegna þess að fólki finnst þröskuldurinn of hár. Það veit ekki hvernig þetta virkar hér og það getur verið allt öðruvísi en í heimalandinu. Þá getur verið að fólk hafi enga reynslu af pólitík, hvorki hér né þar sem það bjó áður. Mín reynsla er sú að það að hefja stjórnmálaþátttöku er svolítið eins og að flytja á milli landa; maður þarf aftur að læra nýtt tungumál og nýjar óskrifaðar reglur.“

Tækifærin eru fyrir hendi

Sabine segir að hugmyndin með námskeiðinu hafi verið að hjálpa konum við að lækka þröskuldinn og að kynna fyrir þeim hvernig stjórnmálin hér virka. „Í byrjun fórum við yfir markmiðin sem þær gætu náð með þessu námskeiði. Svo kynntum við pólitíska kerfið, hvernig það virkar, hvað er t.d. prófkjör og hvernig kemst maður inn í svona starf og hvort maður sé velkominn. Við fengum fulltrúa frá öllum flokkum sem eru á Alþingi núna til að kynna starf sitt og þeim lá á að bjóða þessar konur velkomnar og sýna þeim fram á að það er virkilega hægt að fá tækifæri. Við tikkum í alls konar box; það vantar raddir innflytjenda og vantar raddir kvenna, og þá fær maður tækifæri.“

Sabine bindur miklar vonir við að námskeiðið skili árangri. „Þetta er öflugt fólk sem hefur mikinn áhuga og vill hafa áhrif. Ég veit að tvær kvennanna eru að vinna að því að stofna grasrótarsamtök fyrir ákveðinn málaflokk. Um leið og þú vilt koma einhverju á ertu komin í pólitík, alveg sama hvort það er mannréttindamál eða tómstundamál.“

Töluðu íslensku á námskeiðinu

Fimmtán konur sækja stjórnmálanámskeiðið og segir Sabine hópinn mjög breiðan, sumar hafi búið hér í 20 ár en aðrar í þrjú. „Við tölum íslensku á námskeiðinu og leggjum mikla áherslu á að það þarf að hafa góðan skilning á íslensku til að geta tekið þátt á þessu stigi. Það gengur mjög vel og mikilvægt fyrir konurnar að fá vettvang þar sem þær geta talað á íslensku um þennan málaflokk. Það þarf að auka skilning á að það er í lagi að tala um flókin mál með hreim. Það þarf að auka raddir innflytjenda í útvarpi og sjónvarpi svo fólk venjist því að það sé eðlilegt að hlusta á alls konar málefni rædd af fólki með hreim, ekki bara málefni tengd innflytjendum. Við erum ekki útlendingar frá morgni til kvölds, heldur þegnar samfélagsins eins og allir aðrir.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert