Fyrsta íslenska kattakaffihúsið

Ragnheiður Birgisdóttir og Gígja Sara Björnsson.
Ragnheiður Birgisdóttir og Gígja Sara Björnsson. Haraldur Jónasson / Hari

„Við erum miklar kattakonur og nú þegar gæludýr eru leyfð á veitingastöðum ákváðum við að nota tækifærið og koma í framkvæmd hugmynd sem við höfum brætt með okkur,“ segir Gígja Björnsson, sem ásamt Ragnheiði Birgisdóttur undirbýr opnun Kattakaffihúss á Bergstaðastræti 10a. Kaffihús af þessu tagi njóta sívaxandi vinsælda um allan heim en það fyrsta var opnað fyrir um tuttugu árum í Taívan.

Kattakaffihús njóta sívaxandi vinsælda um allan heim.
Kattakaffihús njóta sívaxandi vinsælda um allan heim.


„Kettirnir hjá okkur eru í heimilisleit en við erum meðal annars í samstarfi við samtökin Villiketti. Það er því hægt að ættleiða kettina. Það er oft erfitt að koma eldri köttum á heimili, kettlingar fara fljótt, og við lítum á þetta sem góða leið fyrir fólk til að kynnast kisunum.“
Móðir Gígju Söru, Helga Björnsson fatahönnuður, sem er þekkt fyrir störf sín í hátískuheiminum ytra, mun mála og skreyta húsnæðið svo víst er að fallegt verður um að litast en einnig verða vörur frá henni, púðaver og ýmislegt, til sölu.


„Rýmið er lítið svo við verðum ekki með marga ketti í einu til að þeim líði sem best. Þeir verða með klórur, hillur og dót til að klifra í og leika sér með. Fyrir gesti er svo ýmiss konar grænmetis- og veganfæði. Einfaldir réttir, morgunmatur svo sem hafragrautur, samlokur og kökur. Þetta á að vera huggulegt og þægilegt, fólk geti notið þess að hlusta á róandi mal í ketti og fá sér kökusneið.
Rétt er að taka fram að fólk getur ekki komið með eigin ketti heldur er kaffihúsið hugsað fyrir þá heimilislausu og það verða tvöfaldar dyr til að þeir villist ekki út. Kaffihúsið verður opnað fyrir jól.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert