Tugir leita í Hvalfirði

Þrír björgunarbátar taka þátt í leitinni. Myndin er úr safni.
Þrír björgunarbátar taka þátt í leitinni. Myndin er úr safni. mbl.is/Sigurður Bogi

Hátt í 40 björgunarsveitarmenn taka nú þátt í leitaraðgerðum í og við Hvalfjörð eftir að tilkynning barst frá vegferanda sem sagðist hafa séð neyðarkall með ljósmerki frá sjó um kl. 12. Þrír bátar taka þátt í aðgerðunum sem eru í fullum gangi og þá er þyrla Landhelgisgæslunnar í viðbragðsstöðu. 

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að rétt upp úr klukkan 13 hafi drónahópar úr Reykjavík verið boðaðir á vettvang. 

„Það er leit í gangi í Hvalfirði. Menn eru bara að leita af sér allan grun til þess að vera vissir. En ennþá hefur ekkert fundist,“ segir Davíð í samtali við mbl.is. 

„Allir viðbragðsaðilar taka þessu eins alvarlega og hægt er, af því að við þurfum að vera viss,“ segir Davíð og bætir við að bæði sé leitað á sjó og á landi. „Menn fara í þetta verkefni og leita þar til einhverjar vísbendingar koma eða þeir finna eitthvað sem hægt er að telja að sé líklegt að það hafi komið eitthvað merki frá.“

Björgunarsveitarmenn sáu fyrr í dag einhvern hlut í sjónum. Um er að ræða bauju en menn hafa ekki náð að staðfesta hvort ljósið hafi komið frá baujunni. Það sé í skoðun. 

Aðstæður til leitar eru góðar, bjart en kalt. Birtan helst hins vegar ekki lengi og reyna menn nú að nýta hana eins og best verður á kosið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert