Þrjú umferðaróhöpp í Kömbunum

mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Þrjú umferðaróhöpp urðu í Kömbunum fyrir ofan Hveragerði á skömmum tíma í dag samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi.

Fyrsta óhappið átt sér stað með þeim hætti að ökumaður bifreiðar missti stjórn á henni og ók utan í vegrið. Minniháttar skemmdir urðu á bæði vegriðinu og bifreiðinni og ökumaðurinn slapp ómeiddur. 

Skömmu síðar ók ökumaður bifreiðar á leið niður Kambana aftan á kyrrstæða bifreið frá Vegagerðinni, en starfsmenn Vegagerðarinnar voru að laga skemmdirnar á vegriðinu til bráðabirgða. Áreksturinn var talsvert harður en engin alvarleg slys á fólki.

Þegar lögreglan var að athafna sig á vettvangi ætlaði ökumaður bifreiðar að taka fram úr annarri en sá þá hvað var í gangi vegna aftanákeyrslunnar og reyndi að sveigja frá. Það tókst en með þeim afleiðingum að hann missti stjórn á bifreiðinni og lenti fyrst á vegriðinu hægra megin og síðan vinstramegin. Engin slys urðu heldur á fólki í því tilfelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert