Magnús í skilorðsbundið fangelsi

Magnús Garðarsson, fyrrverandi forstjóri United Silicon.
Magnús Garðarsson, fyrrverandi forstjóri United Silicon. mbl.is/aðsent

Magnús Ólafur Garðarsson, fyrrverandi forstjóri United Silicon, var á föstudaginn dæmdur í skilorðsbundið fjögurra mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness fyrir hraðakstur á Tesla-bifreið sinni á Reykjanesbraut í desember 2016 og fyrir að hafa valdið umferðarslysi.

Magnús var ennfremur sviptur ökuréttindum í tólf mánuði og gert að greiða ökumanni sem slasaðist í slysinu 600 þúsund krónur í miskabætur og rúmar 420 þúsund krónur í málskostnað. Þá var honum gert að greiða verjendum sínum rúmar 2,1 milljón króna í málsvarnarlaun. Hins vegar var ekki fallist á kröfu um að bifreið Magnúsar yrði gerð upptæk.

Vitni voru að hraðakstri Magnúsar sem lýstu því hvernig hann hafi tekið fram úr mörgum bifreiðum á miklum hraða og í sumum tilfellum þar sem slíkt er ekki leyfilegt. Magnús neitaði sök og sagðist hafa vandað sig við aksturinn. Hann hafi ætlað fram úr hinni bifreiðinni en þá hnerrað skyndilega með þeim afleiðingum að hann hafi misst stjórn á bifreið sinni.

Við þetta hafi Tesla-bifreið hans lent með hægra framhornið á vinstra afturhornið á Toyota-bifreið. Viðurkenndi Magnús að hafa ekið of hratt miðað við aðstæður en vildi meina að hann hefði ekki verið á 183 kílómetra hraða á klukkustund eins og fram kemur í ákæru. Taldi hann að það gæti ekki staðist að hann hefði verið að aka á svo miklum hraða.

Segist hafa spólað þegar hann hnerraði

Rannsóknir á bifreiðinni sýndu að 25 sekúndum fyrir áreksturinn hafi bifreiðin verið á 183 km/klst hraða en einni sekúndu fyrir hann á 116 km/klst hraða. Magnús taldi að síðari talan væri sú rétta en hann hafi ekki verið að fylgjast með hraðamælingum. Hins vegar gæti skýringin á hærri tölunni verið sú að hann hafi spólað þegar hann hnerraði.

Ökumaður hinnar bifreiðarinnar bar fyrir dómi að hann hefði aldrei séð Tesla-bifreiðina heldur aðeins fundið fyrir höggi á bifreið sína og síðan endað utan vegar. Fór hann fram á eina milljón króna í miskabætur, einkum vegna þeirra líkamlegu áverka sem hann hefði orðið fyrir í slysinu, en voru sem fyrr segir dæmdar 600 þúsund krónur.

Fram kemur í dómnum að óumdeilt sé að Magnús hafi ekið Tesla-bifreiðinni og ekið aftan á Toyota-bifreiðina sem endað hafi utan vegar og ökumaður hennar orðið fyrir meiðslum. Magnús hafi ennfremur viðurkennt að hafa ekið of hratt miðað við aðstæður. Margar tilkynningar hefðu borist neyðarlínunni um ofsahraða bifreiðarinnar.

Rifjað er upp að Magnús hafi áður í tvígang verið sviptur ökuréttindum vegna hraðaksturs, 2007 og 2016, og ennfremur gengist undir sátt vegna tollalagabrots árið 2012. Með dóminum nú sé hann sakfelldur fyrir ofsaakstur, fyrir að hafa raskað umferðaröryggi á alfararleið og fyrir að hafa á ófyrirleitinn hátt stofnað lífi og heilsu annarra í hættu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert