Landverðir segja að sér vegið

Varða á vegi í Vatnajökulsþjóðgarði.
Varða á vegi í Vatnajökulsþjóðgarði. mbl.is/Sigurður Bogi

Landvarðafélag Íslands segir að sér vegið með málflutningi framkvæmdastjóra Vatnajökulsþjóðgarðs vegna fjármálahalla stofnunarinnar.

Þórður H. Ólafsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs, greindi frá því í síðustu viku að þjóðgarðurinn hefði farið rúmar 70 milljónir króna fram úr rekstraráætlun. 

Í yfirlýsingu frá félaginu segist það harma að framkvæmdastjórinn geri nýjan stofnasamning að blóraböggli fyrir fjármálahallann.

„Telja landverðir að sé vegið með þessum málflutningi, sér í lagi þar sem landverðir teljast ekki til hálaunafólks,“ segir í yfirlýsingunni.

Þar kemur fram að seinasti stofnanasamningur hafi verið gerður árið 2010 og skv 11. grein kjarasamninga hafi verið löngu kominn tími á endurskoðun hans.

Einnig bendir félagið á að Vatnajökulsþjóðgarður hafi skorið niður í landvörslu til að mæta auknum launakostnaði síðasta sumar. Það hafi þýtt að minni landvarsla var í Vatnajökulsþjóðgarði síðasta sumar þrátt fyrir áframhaldandi fjölda ferðamanna.

„Stofnunin getur ekki heldur skýlt sér á bak við dóm um fjarvistaruppbót starfsmanna í óbyggðum. Sá dómur féll árið 2015 og mátti stofnunin búast við því að þurfa að greiða laun aftur í tímann. Enda trúum við því að stofnun á borð við Vatnajökulsþjóðgarð sé öll af vilja gerð að fara eftir kjarasamningum.“

Vatnajökulsþjóðgarður.
Vatnajökulsþjóðgarður. mbl.is/Rax
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert