Fari aftur af stað eftir 3-4 ár

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Við erum í raun og veru tilbúin að auka arðgreiðslur í skrefum,“ sagði Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, á blaðamannafundi í dag þar sem uppgjör vegna ársins 2017 var kynnt. Það væri að sjálfsögðu eigandinn sem réði ferðinni í þeim efnum, það er ríkið, og það færi einnig eftir því hvenær fyrirhugaður þjóðarsjóður tæki til starfa.

Rekstur Landsvirkjunar gekk mjög vel á síðasta ári, en þá varð mesta orkusala í sögu fyrirtækisins á einu áriog fimm stöðvar slógu vinnslumet. Hagnaður fyrir óinnleysta liði hefur heldur aldrei verið hærri og tekjurnar aldrei verið hærri. Hörður sagði ástæðuna ekki síst þá að flestir viðskiptavinir Landsvirkjunar hefðu verið að fullnýta samninga sína. Það endurspeglaði um leið ágæt viðskiptakjör á þeirra mörkuðum og gott gengi í rekstri þeirra.

Hörður sagði framleiðsluna á síðasta ári hafa verið mjög nálægt afkastagetu Landsvirkjunar. Það byggðist á því að rekstur fyrirtækisins gengi vel sem hefði verið raunin á síðasta ári sem sýndi sig í vinnslumetum fimm stöðva. Aðrar stöðvar hefðu að sama skapi verið að ganga vel. þannig hefði nýtingarhlutfall elstu stöðvarinnar, Ljósafossstöðvar, verið 97,5%.

Ekki heppilegur tími fyrir framkvæmdir núna

Miklu framkvæmdatímabili lýkur í sumar þegar lokið verður við Þeistareykjastöð og Búrfell II. Það þýddi að hægt yrði að leggja enn meiri áherslu á að greiða niður skuldir með því fjármagni sem annars hefði farið í fjárfestingar. Aðspurður sagði Hörður að undirbúningur fyrir frekari framkvæmdir væru í undirbúningi en engin ákvörðun hefði verið tekin í þeim efnum. Fara þyrfti aftur af stað með framkvæmdir að hans mati eftir 3-4 ár.

Hörður sagði það henta Landsvirkjun ágætlega að taka einhvern tíma í að einbeita sér að því greiða niður skuldir og styrkja þannig stöðu fyrirtækisins enn frekar. Tíminn núna væri heldur ekki endilega heppilegur til þess að fara í framkvæmdir vegna þenslu, hvorki fyrir Landsvirkjun né samfélagið. Vegna kostnaðar myndi fyrirtækið þurfa að fara þyrfti fram á umtalsvert hærra verð frá viðskiptavinum ef útboð færi fram núna.

Hörður sagði Landsvirkjun sjá margt jákvætt í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Ekki síst orkustefnu til framtíðar sem vonandi skapaði meiri sátt í þeim efnum. Hann fagnaði einnig áformum um fyrirhugaðan þjóðarsjóð. Lagði hann einnig áherslu á að staða heilsölumarkaðarins yrði tryggð í orkustefnunni. Sagðist hann vona að stefnan lægi fyrir sem fyrst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert