Kjartan og Áslaug ekki á lista Sjálfstæðisflokks

Eyþór Arnalds leiðir lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Eyþór Arnalds leiðir lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Kjartan Magnússon og Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, eru ekki á lista uppstillingarnefndar flokksins í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Hildur Björnsdóttir, lögfræðingur og fyrrverandi formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands, skipar hins vegar annað sæti listans.

Þetta hefur mbl.is fengið staðfest, en greint frá því að Áslaug og Kjartan væru úti í Fréttablaðinu í morgun, en Kjarninn greindi fyrstur frá því að Hildi hefði verið boðið annað sætið.

Bæði Kjartan og Áslaug tóku þátt í leiðtogaprófkjöri flokksins en lutu í lægra haldi fyrir Eyþóri Arnalds.

Hildur Björnsdóttir, lögfræðingur og fyrrverandi formaður SHÍ.
Hildur Björnsdóttir, lögfræðingur og fyrrverandi formaður SHÍ. Ljósmynd/Aðsend

Borgarfulltrúinn Marta Guðjónsdóttir er því sú eina úr núverandi flokki borgarfulltrúa sem verður á lista Sjálfstæðismanna í vor, en Halldór Halldórsson hættir afskiptum af borgarmálum að kjörtímabilinu loknu.

Marta sjálf segir í samtali við mbl.is að henni hafi verið treyst til að taka sæti á listanum en vill ekki gefa upp hvaða sæti það er fyrr en á fimmtudag er listinn verður kynntur.

„Ég hlakka til að hefja kosningabaráttuna, enda er mikill meðbyr með stefnunni okkar,“ segir Marta.

Hún segir listann sterkan og sigurstranglegan, en að öðru leyti vill hún ekki tjá sig um uppstillinguna.

Áslaug Friðriksdóttir og Kjartan Magnússon.
Áslaug Friðriksdóttir og Kjartan Magnússon. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert