Vantaði lyklakippu fyrir lykilinn að nýja húsinu

Guðni fékk afhenta fyrstu lyklakippuna.
Guðni fékk afhenta fyrstu lyklakippuna. Ljósmynd/Barnaheill

Árlega vorsöfnun Barnaheilla hefst í dag með sölu á lyklakippum sem eru hannaðar og framleiddar af handverksfólki í Freetown, höfuðborg Síerra Leóne.

Söfnunin stendur yfir fram á mánudaginn 6. maí og mun allur ágóði sölunnar renna til verkefna Barnaheilla sem snúa að vernd gegn ofbeldi á börnum.

Hægt er að nálgast lyklakippurnar hjá sölufólki og á heimasíðunni Barnaheill.is.

„Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, fékk afhenta fyrstu lyklakippu söfnunarinnar við hátíðlega athöfn á Bessastöðum fyrr í vikunni. Hann hefur verið verndari Vináttu frá árinu 2017 sem er forvarnarverkefni Barnaheilla gegn einelti,“ segir í tilkynningu.

„Guðni sagði það heiður að geta lagt hönd á plóg sem verndari barna. Hann þakkaði kærlega fyrir lyklakippuna og sagði hana henta einstaklega vel núna því hann vantaði lyklakippu fyrir lykilinn að nýja húsinu!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert