Varð að hífa mennina úr fjörunni

mbl.is/Ómar

„Þessi fjara er þannig að hún er stórgrýtt og brotsjór gengur þarna yfir þó að það sé nánast logn,“ segir Kristján Guðmundsson, varaformaður Björgunarsveitarinnar á Dalvík, í samtali við mbl.is en fjórum karlmönnum var bjargað úr sjónum við Hálshöfða sunnan við Dalvík um klukkan þrjú í dag eftir að léttur plastbátur sem þeir voru á hvolfdi.

Kristján segir að mönnunum hafi tekist að komast í land og hringja eftir aðstoð en að hífa hafi þurft þá upp úr fjörunni þar sem erfitt hafi verið að komast að þeim í stórgrýtinu, en klettabelti er við fjöruna, og ekkert vit hafi verið í því að reyna að nálgast þá frá sjó vegna brimsins.

Mennirnir voru í kjölfarið fluttir til aðhlynningar á sjúkrahúsinu á Akureyri. Björgunarsveitir frá Dalvík og Ólafsfirði voru ræstar út vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert