Jáeindaskanninn af stað innan skamms

Fyrsta skóflustungan að húsnæði undir jáeindaskannann var tekin fyrir rúmum …
Fyrsta skóflustungan að húsnæði undir jáeindaskannann var tekin fyrir rúmum tveimur árum. mbl.is/Styrmir Kári

Samkvæmt Pétri Hannessyni, yfirlækni á röntgendeild Landspítalans, má vænta þess að starfsemi jáeindaskannans, sem Íslensk erfðagreining ákvað að kaupa fyrir spítalann árið 2015, geti farið af stað „innan skamms.“

Fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir því að taka mætti tækið í notkun um miðjan september árið 2016, en þær hafa ekki staðist, né heldur áætlanir sem gerðu ráð fyrir því að skanninn yrði tekinn í notkun síðasta haust og janúarmánuði síðastliðnum.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, lýsti því í samtali við DV um helgina að hann væri pirraður yfir því hve lengi verkið hefði dregist.

„Af og til spyr ég um þetta, því mér finnst þetta vera orðinn mjög langur tími. Eiginlega alveg ótrúlega langur og mér finnst þetta með algjörum ólíkindum. Ég hélt að þetta yrði komið í notkun fyrir ári eða um það bil,“ sagði Kári við DV.

Þurfa vottun frá Lyfjastofnun til framleiðslu merkiefna

Í svari Péturs við fyrirspurn mbl.is um stöðuna á gangsetningu jáeindaskannans segir að öllum undirbúningi eigi að vera lokið um miðjan marsmánuð og að óskað hafi verið eftir úttekt Lyfjastofnunar, sem þarf að veita leyfi sitt til þess að unnt verði að rannsaka sjúklinga í tækinu.

Það er vegna þess að sjúklingum sem er fara í jáeindaskannann er gefið geislavirkt lyf, svokallað merkiefni, sem framleitt er á Landspítalanum. Framleiðsla merkiefna eins og hér um ræðir hefur ekki verið til í landinu áður og að sögn Péturs hefur starfsfólk fengið ítarlega þjálfun í þeim efnum.

„Lyfjaframleiðslan fer fram samkvæmt ítrustu stöðlum þar sem hvert skref þarf að vera vottað. Fyrir framleiðsluna þarf umfangsmikinn háþróaðan tækjabúnað sem er stærsti hluti fjárfestingarinnar vegna þessa verkefnis,“ segir í svari Péturs.

Pétur segir um það bil 250 sjúklinga hafa farið erlendis til rannsókna í jáeindaskanna á síðasta ári, en gera megi ráð fyrir því að töluvert fleiri sjúklingar geti nýtt sér meðferðina er hún verður aðgengileg hér á landi.

„Þar sem að um nýja rannsóknaraðferð er að ræða mun taka einhvern tíma þar til hún er komin í fulla notkun en miðað við notkun tækninnar í nágrannalöndum okkar ætti skanninn að duga til að framkvæma þær rannsóknir sem þörf er á á næstu árum,“ segir Pétur.

Heildarkostnaður verkefnisins er 1.038 milljónir og stærsti hlutinn er gjöf Íslenskrar erfðagreiningar til íslensku þjóðarinnar, en hlutur spítalans er 188 milljónir króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert