20.000 krónur á dag í ferðakostnað

Ásmundur Friðriksson.
Ásmundur Friðriksson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ferðakostnaður þingmanna hefur verið mikið í umræðunni síðustu vikur eftir fyrirspurn Björns Leví Gunnarssonar, þingmanns Pírata, frá í síðasta mánuði þar sem beðið var um sundurliðun á ferðakostnaði þingmanna árin 2013-16. Kom þar fram að sá sem mest þáði í akstursgreiðslur árið 2016, Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fékk um 4,6 milljónir króna.

Starfskostnaður þingmanna frá áramótum hefur nú verið birtur á heimasíðu Alþingis. Hægt er að nálgast upplýsingarnar með því að smella á nafn þingmanns og ýta á „Laun og kostnaðargreiðslur“.

Greiðslurnar eru sundurliðaðar í ferðakostnað innan- og utanlands, húsnæðiskostnað, síma- og netkostnað og fleira. Sem fyrr segir nær yfirlitið einungis til greiðslna frá áramótum en stefnt er að því að á næstunni verði þingfararkostnaður birtur tíu ár aftur í tímann.

Jafngildir 7,3 milljónum á ársgrundvelli

Ásmundur trónir enn á toppnum, en í janúar þáði hann 600 þúsund krónur í innlendan ferðakostnað, allt vegna ferða á eigin bíl. Það jafngildir um 20.000 krónum á dag, eða 7,3 milljónum á ársgrundvelli ef fer sem horfir.

Á hæla hans kemur Þórunn Egilsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, en innlendur ferðakostnaður hennar er um 575 þúsund krónur, þar af um 200 þúsund krónur í gisti- og fæðiskostnað, 200 þúsund í flugferðir og 167 þúsund krónur í ferðir með bílaleigubíl.

Austurvöllur og Alþingishúsið.
Austurvöllur og Alþingishúsið. mbl.is/Ómar Óskarsson

Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, er þriðja með innlendan ferðakostnað upp á 472 þúsund krónur, allt vegna ferða á eigin bíl. Oddný er þingmaður Suðurkjördæmis en hún á heima í Garði á Reykjanesi. Vert er þó að taka fram að sá kostnaður sem Oddný fékk endurgreiddan í janúar, er vegna reikninga frá árinu 2017. Hún hefur ekki fengið endurgreiddan kostnað fyrir ferðir á þessu ári. 

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingkona VG, kemur næst með 360 þúsund krónur í innlendan ferðakostnað. Bróðurparturinn, 293 þúsund, er vegna flugferða innanlands en afgangurinn vegna notkunar á bílaleigubíl. Lilja er þingmaður Norðvesturkjördæmis er með lögheimili að Suðureyri en með aðsetur í Kópavogi. 

Þingmenn eru margir hverjir tíðir gestir Reykjavíkurflugvallar.
Þingmenn eru margir hverjir tíðir gestir Reykjavíkurflugvallar. Árni Sæberg

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, fékk 304 þúsund krónur endurgreiddar vegna ferða innanlands í janúar. Hún er einnig þingmaður Norðausturkjördæmis, með lögheimili á Ólafsfirði en býr í Reykjavík. Hún hefur fengið 180 þúsund krónur endurgreiddar vegna aksturs á bílaleigubíl, en afganginn vegna flugferða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert