Hættustig enn í gildi á Seyðisfirði

Frá Seyðisfirði.
Frá Seyðisfirði. Ljósmynd/Steinunn Ásmundsdóttir

Hættustig vegna snjófljóða á Seyðisfirði og óvissustig á Austurlandi sem var lýst yfir í gærkvöldi eru enn í gildi.

Að sögn Hörpu Grímsdóttur, hópstjóra ofanflóðavöktunar hjá Veðurstofu Íslands, er þó reiknað með því að ástandið sé frekar að batna.

Fundað verður aftur fljótlega þar sem ákveðið verður um framhaldið.

„Þetta svæði hefur þannig sögu að það hafa farið votflóð niður. Það er talsverður snjór í fjöllum og það hóf að rigna og hlána í gær,“ segir Harpa og nefnir snjóflóðið sem féll niður á veg úr Strandartindi.

Hún bætir við að rigningin á Seyðisfirði hafi verið heldur minni en verstu spár gerðu ráð fyrir í gærkvöldi. Yfirleitt sé hættan mest í byrjun hláku.

Í gærkvöldi var tekin ákvörðun um að rýma reiti 4 og 6 undir Strandartindi og er hún enn í gildi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka