Hættustig vegna snjóflóða á Seyðisfirði

mbl.is/Kristján

Lýst var yfir hættustigi vegna snjóflóða á Seyðisfirði í gærkvöldi og óvissustigi á Austurlandi. Þá var tekin ákvörðun um að rýma reiti 4 og 6 undir Strandartindi á Seyðisfirði. Þar er iðnaðarhúsnæði og verbúð. Á því svæði eru dæmi um að vot snjóflóð hafi ógnað byggð.

Óvissustig vegna snjóflóðahættu er nú í gildi á Austurlandi. Hláka er á svæðinu og í nótt og í dag er spáð talsvert mikilli rigningu sem kemur ofan í snjó sem fyrir er. Vot flóð hafa fallið, m.a. nokkuð stórt flóð úr Strandartindi, en það fór yfir veg sem liggur út með Seyðisfirði sunnanverðum, að því er fram kemur á vef Veðurstofu Íslands.

„Vott snjóflóð féll niður á veg úr Strandartindi á Seyðisfirði. Óvissustigi vegna hættu á votum snjóflóðum hefur verið lýst yfir fyrir Austfirði. Nokkur hús á undir Strandartindi hafa verið rýmd vegna snjóflóðahættu.

Í síðustu viku snjóaði mikið til fjalla í fremur hægri N-NA átt. Stöðugleiki í snjónum sem fyrir er var nokkuð góður en spýja féll úr Bræðslugjám við Neskaupstað á sunnudag. Mikilli úrkomu er spáð síðdegis á miðvikudag og á fimmtudag, fyrst slyddu en rigningu á láglendi og síðar rigningu víðast hvar, e.t.v. 75-100 mm alls til fjalla. Úrkomunni fylgir hætta á blautum snjóflóðum úr efri hluta hlíða og hætta á skriðuföllum og e.t.v. krapaflóðum úr giljum á skorningum á láglendi. Vart varð við snjóflóð í Hólmgerðarfjalli við Oddsskarð á miðvikudagsmorgni eftir að rignt hafði nokkra stund,“ að því er segir á vef Veðurstofunnar en þetta er ritað í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert