Rýna í líðan fullorðinna ættleiddra

Líðan fullorðinna ættleiddra er skoðuð í nýrri rannsókn. Mynd úr …
Líðan fullorðinna ættleiddra er skoðuð í nýrri rannsókn. Mynd úr safni. AFP

Vísbendingar eru um að fullorðnir ættleiddir á Íslandi eru frekar með aðskilnaðarkvíða og eru óöruggari í nánum samböndum en þeir sem ekki eru ættleiddir. Þetta kemur fram í rannsóknar Hildar Óskar Gunnlaugsdóttur, meistaranema í klínískri sálfræði við Háskólann í Reykjavík, á líðan fullorðinna ættleiddra á Íslandi. Hildur kynnti rannsóknina á 40 ára afmælismálþingi Íslenskrar ættleiðingar sem haldið var í dag.  

Rannsóknin er viðamikil og er hluti af meistararitgerð hennar sem snýr að líðan og tilfinningatengslum uppkominna ættleiddra. Hildur bendir á að enn eigi eftir að vinna frekar úr rannsókninni og skoða fjölmarga þætti hennar. Rannsóknin er unnin í samvinnu við Íslenska ættleiðingu og byggist á þátttöku uppkominna ættleiddra einstaklinga. 

Þetta er fyrsta íslenska rannsóknin sem skoðar þessa  afmörkuðu þætti hjá þessum hópi og mögulega einnig sú fyrsta sinnar tegundar á fullorðnum ættleiddum í heimi, að sögn Hildar. Hins vegar hafa fjölmargar rannsóknir verið gerðar á svipuðum þáttum hjá börnum. 

Mikilvægt að veita börnum meðferð   

Í rannsókninni eru ýmsir þættir skoðaðir auk aðskilnaðarkvíða og tengslamyndunar í nánum samböndum, lífsánægja, kvíði og þunglyndi. Fyrstu niðurstöður á þessum þáttum benda til að ættleiddir einstaklingar séu á svipuðum stað og þeir sem ekki höfðu verið ættleiddir. 

Eitt af því sem verður rýnt nánar í er aðskilnaðarkvíði og kvíðatengsl í nánum samböndum sem lýsa sér gjarnan í óöryggi, ótta við höfnun og fleira í þeim dúr.

„Ég vil vita hvort til dæmis aðskilnaðarkvíðinn sem greinist oft hjá ættleiddum börnum viðhaldist fram á fullorðinsár. Það er mikilvægt fyrir okkur að hafa þessar upplýsingar því ef þetta er vandi sem viðhelst og hefur hamlandi áhrif á daglegt líf þá er þetta eitthvað sem þarf að skoða betur og veita börnum meðferð til að koma í veg fyrir þetta,“ segir Hildur.

Hildur útskrifast í júní sem klínískur sálfræðingar um svipað leyti og hún fer í fæðingarorlof. Eftir það hyggst hún starfa sem sálfræðingur og hefur einkum áhuga á að vinna með fullorðnum ættleiddum og mögulega sérhæfa sig í þeim málaflokki ásamt fleiri í framtíðinni.  

Ítarlegri niðurstöður rannsóknarinnar munu birtast í vísindagrein sem verður aðgengileg almenningi.   

Hildur Ósk Gunnlaugsdóttir, meistaranemi í klínískri sálfræði við Háskólann í …
Hildur Ósk Gunnlaugsdóttir, meistaranemi í klínískri sálfræði við Háskólann í Reykjavík. Ljósmynd/Háskóli Reykjavíkur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert