Forsetinn byrjaður að plokka

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, kampakátur við Bessastaði í dag.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, kampakátur við Bessastaði í dag. Ljósmynd/Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur tekið upp þá nýstárlegu iðju að plokka (e. plogging), en orðið vísar til þeirra sem nýta hlaupatúra sína og skokk til þess að tína rusl. Hugtakið er hingað komið frá meginlandi Evrópu, en er upprunalega frá Svíþjóð.

Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé birti í dag mynd af forsetanum á Facebook þar sem hann var á Bessastaðalóðinni að tína rusl í hlaupagalla.

Plokkað á kajak

Einar Bárðarson, samskiptastjóri Hafnarfjarðarbæjar, setti nýverið á laggirnar Facebook-hóp þar sem fjöldi fólks deilir sögum og myndum af ploggi. Nú eru yfir sex hundruð manns í hópnum. Um plokkið var fjallað í Morgunblaðinu í gær. 

„Það er fólk úti um allt land að taka þátt og deila inn á hópinn Það sem mér fannst skemmtilegast var að einn þeirra sem setti inn færslu plokkar á kajak. Hann fer upp undir fjöruna og togar í plast og annað drasl, setur í poka hjá sér og rær síðan í land,“ segir hann í samtali við mbl.is. 

„Þetta er akkúrat tíminn þar sem rusl er áberandi og auðvelt að tína það. Það er sjáanlegt í gróðrinum og mikið af því að koma undan snjónum. Það er frábært að geta hreyft sjálfan sig og fegrað umhverfið í leiðinni. Mest gaman er þó að sjá hvað þetta er smitandi,“ segir Einar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert