Höfðar mál vegna „You raise me up“

Jóhann Helgason (t.h.) ásamt vini sínum Magnúsi Þór Sigmundssyni.
Jóhann Helgason (t.h.) ásamt vini sínum Magnúsi Þór Sigmundssyni. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Tónlistarmaðurinn Jóhann Helgason ætlar að höfða mál gegn höfundi og útgefanda lagsins „You raise me up“ sem tónlistarmaðurinn Josh Groban gerði heimsþekkt árið 2003. Þykir lagið líkjast laginu Söknuður, sem Jóhann samdi árið 1977 við texta Vilhjálms Vilhjálmssonar. Er erlend lögfræðistofa komin með málið á sínar hendur og mun á næstunni sækja fjármagn til að standa í málaferlum sem talið er að geti kostað á annað hundrað milljónir króna.

Málið á rætur að rekja til ársins 2004 þegar STEF lét framkvæma sérfræðiálit þar sem tónskylt efni laganna var metið allt að 97%. Ekkert varð þó af málaferlum þá, en á morgun mun Jóhann halda blaðamannafund þar sem hann kynnir væntanleg málaferli.

Í tilkynningu vegna málsins segir að málsóknin muni beinast gegn Universal Music, norska lagahöfundinum Rolf Løvland og fleirum vegna hugverkastuldar á laginu Söknuður og sölu þess í um hundrað milljónum eintaka á undanförnum árum.

Þá verður ný útgáfa lagsins á ensku, undir heitinu „Into the light“ í flutningi Gospelkórs Óskars Einarssonar, kynnt, en henni er ætlað að undirstrika hinn mikla skyldleika laganna.

Segir í tilkynningunni að gert sé ráð fyrir því að kröfur um ógreidd höfundarlaun og skaðabætur geti hlaupið á milljörðum króna.

Söknuður í flutningi Vilhjálms Vilhjálmssonar:

You raise me up í flutningi Josh Groban:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert